Þ að kemur sér illa fyrir þá í Valhöll að Eiríkur Bergmann Einarsson er ekki í Sjálfstæðisflokknum. Þá hefðu þeir getað fengið hann til að leiða eina af „Evrópunefndunum“ sínum fyrir væntanlegan skyndilandsfund. En þrátt fyrir að Eiríkur sjálfur hafi ekki verið fáanlegur þá bendir valið á nefndaformönnunum eindregið til þess, að ekki eigi einu sinni að reyna að láta eins og niðurstaðan sé ekki ákveðin fyrirfram.
Það er fallega gert. Það gefur sjálfstæðismönnum utan Valhallar lengri tíma til undirbúnings fyrir framhaldið.
F jölmiðlar halda áfram að hvetja til skrílsláta með látlausu dekri sínu við þá sem koma fram með öskrum og eggjakasti. Fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var helguð liðinu sem reyndi að hindra löglega ríkisstjórn í því að halda fund. „Mótmælendurnir berjast fyrir réttlátara samfélagi og gegn áframhaldandi valdníðslu ráðamanna“ sagði Margrét Marteinsdóttir fyrirvaralaust þegar hún kynnti langa upphafsfrétt þar sem meðal annars var sent út ávarp eins þeirra sem reyndi að hindra ríkisstjórnarfund.
Það er ekki von að þetta lið hætti, þegar einu afleiðingar skrílsláta eru langar fréttir þar sem menn fá að þylja ræður yfir landsmönnum. Kannski ættu menn bara að taka upp þennan sið. Hvers vegna að skrifa greinar í blöð, tímarit og vefsíður þegar menn þurfa ekki að gera annað en að öskra einhvers staðar til þess að fréttamenn komi hlaupandi og sendi hugðarefni manns út á besta útsendingartíma? Lögreglan kemst varla að fyrir ljósmyndurum þegar hún, útbitin, reynir að halda uppi lögum og reglu. Já, alltaf eru myndatökumennirnir mættir þegar „mótmælin“ hefjast. Það svíkur ekki, fréttanefið.