L
Lífvörðum hennar hátignar þótti þetta barasta ekkert fyndið. |
íkt og flestum er kunnugt hefur það gerst samtímis að landið er í gríðarlegri þörf fyrir erlendan gjaldeyri, og að myndast hafa bestu hugsanlegu aðstæður til þess að fá ferðamenn og erlend fyrirtæki til að koma með þennan gjaldeyri hingað og láta hann í skiptum fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Of veik króna er ekki í sjálfu sér mikið gleðiefni fyrir landann, en þeim aðstæðum fylgir óhjákvæmilega betra tækifæri að afla erlendra tekna en oftast áður.
Meiri gjaldeyrir þýðir minni hættu á vöru- og hráefnisskorti, tryggari atvinnu þeirra sem selja vörur og þjónustu erlendis og vonandi vöxt þeirra atvinnugreina sem við það starfa, og óskandi að það auki þörf þeirra fyrir menn í vinnu. Innflæði gjaldeyris styrkir krónuna að lokum en þrátt fyrir það ættu einhver þau viðskipti við erlenda aðila, sem ef til vill áttu upphaf sitt að þakka veikri krónu, að haldast áfram.
Við núverandi aðstæður eru örugglega ekki margir markaðsmenn innan íslenskra fyrirtækja, sem eiga viðskipti við útlönd eða eru að reyna að stofna til viðskipta erlendis, sem ekki gera sér mat úr þessu. Ekki að undra, sér í lagi í ljósi þess að mörg undanfarin ár hefur þótt mjög dýrt að versla hérlendis. Leifsstöð sá sér leik á borði, því fyrirtækið er jú þannig staðsett, að það er töluvert um fólk með erlendan gjaldeyri að fara þar í gegn. Flugstöðin setti upp svohljóðandi auglýsingaskilti:
Welcome to halfpriceland. Make a great deal on duty free items . Are you here for the nature or the exchange rate?
-Keflavik airport.
Auglýsingin fór í dreifingu á netinu, fékk vægðarlausa gagnrýni og var fjarlægð skömmu síðar.
Makalaust hvað saklaus orðaleikur gat komið við kaunin á sumum. Gagnrýnendurnir hljóta að hafa frétt af því einhvers staðar frá, að krónan hefur jú einmitt fallið um þetta helming á síðustu misserum gagnvart flestum gjaldmiðlum nágrannaríkja og helstu viðskiptalanda. Sem er í sjálfu sér töluvert áfall hvað varðar kaupmátt Íslendinga á innflutta vöru og þjónustu, en eðli máls samkvæmt gullið tækifæri til að selja íslenska framleiðslu út.
Auglýsingar ganga flestar út á ýkjur, orðaleiki, ímyndir og tákn til að vekja athygli á því sem verið er að auglýsa. Þessi auglýsing er merkilega lágstemmd miðað við flestar aðrar. Það er helst þessi spurning um hvort það sé gengisskráningin eða náttúran sem laðar þá hingað sem er dálítið út úr kú. Ferðamenn hljóta sumir að vera að koma hér til að skoða hinna sérkennilegu íslensku náttúru vegna þess að það er ódýrara að gera það núna en mörg síðustu ár, ef ekki áratugi. Það er ekki eins og það sé einhver úrslitakostur, sem hver túristi verður að taka afstöðu til, að velja milli þess að skoða náttúrufyrirbæri landsins annars vegar eða taka gott kaupæði í Leifsstöð hins vegar. Sem aldrei fyrr ættu þeir nú að gert hvort tveggja vandræðalaust og megi þeir sem flestir koma í þeim erindagjörðum. Ekki má skilja forsvarsmenn ferðaþjónustunnar öðruvísi en það ætli þeir einmitt að sæta lagi með það nú. Nema hvað?
Verslunareigendur í flugstöðinni sjá sér vonandi fært að setja upp annað skilti fljótlega til að hvetja ferðamenn til viðskipta, þótt þeir neyðist ef til vill til þess að gera það endemum grátt og húmorslaust úr garði. Það er allt skárra en sú vitleysa að gera engar tilraunir með að afla erlendra viðskipta í stærstu millilandaflugstöð landsins.