Laugardagur 6. desember 2008

341. tbl. 12. árg.

Þ

„Því eins og þeir vita sem hafa tekið gjaldeyrislán er það nánast eins og kraftaverk hversu fljótt fer að ganga á höfuðstólinn.“ – Egill Helgason í desember 2007.

eir eru ófáir sem heimta nú ábyrgð vegna efnahagsástandsins. Þetta ástand er í sinni einföldustu mynd að hvorki helstu bankar landsins, mörg fyrirtæki landsins né hluti heimila standa undir þeim erlendu lánum sem tekin hafa verið á síðustu árum. Menn eru í óða önn að komast að því að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, jafnvel þótt hann sé fenginn að láni á niðursettum vöxtum erlendra seðlabanka.

Viðskiptabankarnir þrír hafa þegar lagt upp laupana vegna erlendrar skuldsetningar og vænta má að ýmis önnur fyrirtæki fari sömu leið á næstunni. Þau heimili sem standa verst í augnablikinu eru tvímælalaust þau sem tóku lán í erlendri mynt til húsnæðiskaupa. Höfuðstóll og afborganir hafa nær tvöfaldast að undanförnu.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur rakið ráðlögðu ýmsir góðir menn almenningi að taka slík lán í erlendri mynt. Þeirra á meðal Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta sem hefur ekki  sparað stóru orðin um ábyrgð þeirra sem komu á einhvern hátt að málum. Annar umboðsmaður ábyrgðar er Egill Helgason. Í desember 2007 veitti hann þjóðinni þessi ráð um erlendu lánin:

Margir verða nú til að benda á að gengisáhætta fylgi því að taka lán í erlendri mynt – þ.e. ef lántakandinn hefur tekjur í íslenskum krónum.
Nú síðast ryðst fram á ritvöllinn Hallur Magnússon hjá Íbúðarlánasjóði – sá maður sem er duglegastur í varðstöðunni fyrir það batterí.
Þetta er satt og rétt en auðvitað engin ný tíðindi. Fæstir eru svo heimskir að þeir taki lán í erlendum gjaldmiðli án þess að skilja að afborganirnar sveiflast með gengi krónunnar.
Málið er bara það að kjörin á lánamarkaði hér eru með slíkum ólíkindum – okrið er þvílíkt – að krónan má falla ansi mikið áður en erlendu lánin verða dýrari en þau íslensku.
Því eins og þeir vita sem hafa tekið gjaldeyrislán er það nánast eins og kraftaverk hversu fljótt fer að ganga á höfuðstólinn.

Nánast eins og kraftaverk! Hver er ábyrgð þeirra sem veittu almenningi heilræði af þessu tagi?