Á sunnudaginn gengu menn til kosninga í Sviss um það hvort fullorðið, sjálfráða fólk megi rækta tilteknar tegundir jurta í stofunni eða garðinum heima hjá sér og neyta sjálft afrakstursins. Þessi rætkun þætti sennilega ekki tiltökumál ef um væri að ræða hýasintur eða grænkál, en þar sem jurtin er Cannabis sativa hefur málið vakið athygli fjölmiðla.
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp á þessum vettvangi rökin gegn því að banna sjálfráða einstaklingum atferli sem skaðar ekki aðra en öðrum þykir siðferðislega ámælisvert. Áhugasömum um það efni er bent á bókina Löstur er ekki glæpur sem Andríki gaf út á síðasta ári og fæst í bóksölu félagsins.
Það er hins vegar athyglisvert að í sömu kosningum og þessi garðyrkjutillaga var felld samþykktu íbúar Sviss að áfram skuli hið opinbera útvega heróínfíklum heróín. Það þykir hafa dregið úr glæpum tengdum notkun efnisins auk þess sem það er talið auka öryggi og bæta lífsskilyrði fíklanna. Þeir þurfa ekki lengur að fjármagna neysluna með vændi eða ránum.
Það er ákveðin þversögn í því að á sama tíma og menn viðurkenna að með því að færa neyslu fíkniefna eins og heróíns fram í dagsljósið og gera neytendur þess ekki sjálfkrafa að glæpamönnum, háða ægivaldi annarra glæpamanna, dregur úr glæpum tengdum notkuninni en hafna á sama tíma að leyfa einstaklingum að rækta sitt eigið kannabis?
Kannski hefðu flutningsmenn tillögunnar náð betri árangri ef þeir hefðu lagt til að ríkið mætti rækta kannabis og úthluta því svo til þeirra sem ríkinu þóknast.