Þ að virðist nokkuð útbreitt viðhorf meðal hinna talandi stétta á Íslandi að einn góðan veðurdag muni loks upplýsast um hin stórkostlega glæp sem kom bönkunum þremur í þrot. Margir fjölmiðlamenn virðast til að mynda trúa þessari skýringu á falli bankanna. Nú ætlar Vefþjóðviljinn ekki að útiloka að pottur hafi verið brotinn einhvers staðar í rekstri bankanna svo jafnvel varði við lög. Það væri óráð að veita nokkru fyrirtæki slíkt vottorð, allra síst þeim sem komin eru í þrot eftir nauðvörn í nokkur misseri.
Það kann hins vegar að verða æstum umboðsmönnum „ábyrgðar“ og „réttlætis“ nokkur vonbrigði ef upp úr dúrnum kemur að helsta skýringin á falli bankanna sé ekki einhver æsilegur glæpur framinn í kokteilboðum í glæsisnekkjum heldur þurr og leiðinlegur lausafjárskortur í alþjóðlegri fjármálakreppu.
Íslensku bankarnir tefldu djarft í lántökum til að þjóna viðskiptavinum sínum, bæði fyrirtækjum og heimilum, sem skuldsettu sig einnig út á ystu nöf í mörgum tilvikum. En ekki má gleyma þeim sem lánuðu bönkunum. Það gleymist stundum að það voru bankar og fagfjárfestar um allan heim sem lánuðu íslensku bönkunum og gerðu þeim mögulegt að koma sér í þessa stöðu. Margir þessara erlendu banka hafa sjálfir lent í miklum vandræðum og sumir þeirra lognast út af eftir að eignaverð fór að hrapa
Áhugaverðasta spurningin í þessu öllu er því ekki hvort einhver bankamaður hafi hugsanlega ætlað að redda sér með vafasömum hætti á síðustu metrunum fyrir fallið. Hinar talandi stéttir og „aðgerðasinnar“ geta kannski ornað sér við slúður um slík mál og beðið í spreng eftir að einhver finnist einhvers staðar sem gert hefur eitthvað ljótt. En það svalar ekki forvitni þeirra sem vilja vita hvernig svo kerfisbundið ofmat á verðbréfum, húsnæði og öðrum eignum gat átt sér stað fyrir mitt árið 2007.
Hvernig náðu bankar, fyrirtæki og heimili víða um lönd að koma sér í þessi vandræði? Hvaðan kom lánsféð sem lyfti eignaverði til flugs? Hver bjó þessa bólu til?
Þetta kerfisbundna ofmat á fyrirtækjum, verðbréfunum sem vísa á þau og offjárfesting í húsnæði er merkilegt fyrirbæri.
A ndríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, hefur frá upphafi staðið undir útgáfunni og kynningu á henni með frjálsum framlögum velunnara. Sem er nákvæmlega eins og það á að vera. Þeir sem vilja bætast í þennan góða hóp velgjörðarmanna félagsins gera það með því að smella á frjálst framlag.