Í
Hong Kong hefur tengt mynt sína við Bandaríkjadal frá 1983 með góðum árangri. |
gær héldu sjálfstæðisfélögin í Vestur- og miðbæ og Austurbæ og Norðurmýri fund í Iðnó þar sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis höfðu framsögu og tóku þátt í fjörugum umræðum með öðrum fundargestum um umræðuefnið „Ísland og öll hin löndin“. Sagt var frá fundinum á mbl.is og á vef Björns.
Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað sérstakan landsfund um stöðu Íslands gagnvart öðrum löndum hefði mátt búast við því að stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu létu finna fyrir sér á fundi sem þessum. Fjölmargir fundarmenn tóku til máls en enginn þeirra lýsti yfir áhuga á aðild Íslands að sambandinu. Þvert á móti veltu menn öllum öðrum möguleikum upp; tengingu við Noreg, Kanada, Bandaríkin og Sviss. Allt frekar en ESB.
Það var augljóst af þessum fundi sjálfstæðismanna að þeir gera sér glögga grein fyrir að gjaldmiðillinn er snöggi bletturinn á núverandi stöðu Íslands. Á meðan ekki fæst betri lausn á því máli en króna íslenska ríkisins verður þrýstingurinn á inngöngu í ESB fyrir hendi. Það hlýtur því að vera helsta verkefni þeirra fram að landsfundi að velta upp þeim kostum sem koma til greina í þeim efnum. Þeir eru auðvitað nokkrir og útfærslur þeirra enn fleiri.
Þeim fjölgar raunar erlendu hagfræðingunum sem telja það ekki augljósustu leiðina út úr gjaldmiðilskreppu Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Í síðust viku flutti John Greenwood aðalhagfræðingur Invesco erindi á vegum hagfræðideildar Háskóla Íslands og RSE í Þjóðminjasafninu um skuldastöðu íslenska hagkerfisins og þá kosti sem Íslendingar standa frammi fyrir í gjaldeyrismálum. Greenwood hefur reynslu af þessum málum þar sem hann hefur frá 1998 átt sæti í opinberri nefnd peningamálayfirvalda í Hong Kong um myntráðsfyrirkomulag og rekstur þess. Hong Kong dalurinn hefur verið tengdur við Bandaríkjadal í aldarfjórðung og reynslan bara verið alveg ágæt.
Þetta er ef til vill leið sem menn ættu að velta betur fyrir sér. Með henni er ekki aðeins komið til móts við þá sem vilja annan gjaldmiðil heldur einnig þá sem telja mikilvægt að hafa mynd af Kjarval og Ragnheiði biskupsfrú á seðlunum sem þeir nota, þá sjaldan menn nota seðla.