B andaríski hagfræðingurinn Robert Higgs hefur um langt skeið rannsakað vöxt ríkisvaldsins. Í bók sinni Crisis and Leviathan setur hann fram svo kallaða krísu kenningu um vöxt valdsins. Higgs tekur fram að hann telji skýringu sína ekki einhlíta, aðrir þættir spila inn í, en rannsóknir hans sýna að ríkisvald vex ekki jafnt og þétt heldur þenst það út á „krísutímum“. Þá komast stjórnvöld upp með að víkja frá stjórnarskrárbundnum réttindum þegnanna og tímaleysi kemur í veg fyrir að menn hugsi um langtíma áhrif aðgerðanna eða hvaða það fordæmi sem lagasetning getur sett. Krísurnar sem helst hafa stuðlað að vexti ríkisvaldsins eru efnahagskreppur og stríð.
Ríkisafskipti sem réttlætt eru í ljósi óvenjulegra aðstæðna á krísutímum verða varanleg og fordæmi sem er fengið með vísan til óvenjulegra aðstæðna er seinna notað í venjulegum gangi lífsins. Þannig þenst ríkið út og nærist jafnvel á eigin axarsköftum hvort heldur það er í peningamálastjórnun eða utanríkismálum.
„Í ljósi þessara atburða í Bretlandi er enn hryggilegra að líta til neyðarlaganna sem sett voru á Íslandi 6. október. Þar eru ríkinu veittar mjög víðtækar heimildir til inngripa í rekstur fyrirtækja og jafnvel þjóðnýtingar þeirra. Vísanir í fordæmið láta ekki á sér standa og meira að segja þingmenn hafa stungið upp á því að fiskveiðiheimildir verði þjóðnýttar í kjölfarið. Þess hefur einnig verið krafist að eigur „auðmanna“ verði ýmist frystar eða þjóðnýttar án dóms og laga og án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um saknæmt athæfi.“ |
Við Íslendingar erum einmitt staddir í slíkum krísum núna, annars vegar efnahagskreppu og gjörðir breskra ráðamanna gagnvart Íslandi virðast fremur miðast við að um stríð sé að ræða en vinaþjóð. Ekki stendur heldur á endalausum tillögum um aukin völd ríkinu til handa, hvort heldur er frá ráðamönnum eða hefðbundnum kaffistofunöldrurum sem nú hafa flutt vansæld sína inná netið í svokallað blog.
Við getum margt lært af skrifum Roberts Higgs núna. Þegar Bandaríkin urðu fyrir árás hryðjuverkamanna 11. september 2001 varð gríðarleg eftirspurn eftir aukinni öryggisgæslu. Þeir sem muna flugferðir á milli landa fyrir þessa atburði og hafa ferðast nýlega vita að það er tvennu ólíku að jafna, tíminn sem nú þarf að verja á flugvöllum er miklu lengri, ónæði svo sem að fara úr skóm sínum og pakka tannkremi ofaní sérstaka poka. En trúa menn því að þetta auki öryggi?
Líklegt er að megin áhrif þessara reglugerða sé fremur að auka ónæði óbreytta borgara en að koma í veg fyrir hryðjuverk. Higgs hefur nýlega bent á það að núverandi yfirvöld í Bandaríkjunum þykjast ekki lengur geta gert mistök, sama hvað fer úrskeiðis það er ávallt réttlætt með vísan til baráttunnar gegn hryðjuverkum.
Íslendingar urðu nýlega harkalega fyrir barðinu á ófyrirséðri nýtingu neyðarúrræða þegar breska stjórnin vísaði í hryðjuverkalög þegar eigur íslenskra fyrirtækja voru frystar í Bretlandi. Nákvæmlega hvað fór á milli íslenskra og breskra ráðamann verður auðvitað að koma í ljós og þar mæðir mest á látúnsbarkanum Björgvini G. Sigurðssyni. En það er ekki hægt að ímynda sér að líf eða limir breskra þegna hafi verið í húfi, eða að það hafi verið tilgangurinn með hryðjuverkalögunum breska að nota þau í efnahagslegum skæruhernaði gegn vinaþjóð. Og vart verður þessi ráðstöfun réttlæt með því að vísunar til fjármálastöðugleika í Bretlandi, enda fjármálakerfið þar að miklu leyti komið í fangið á ríkinu og þyrfti þá sennilega lögunum að vera beitt á alla bankamenn til að jafnræðis sé gætt.
Í ljósi þessara atburða í Bretlandi er enn hryggilegra að líta til neyðarlaganna sem sett voru á Íslandi 6. október. Þar eru ríkinu veittar mjög víðtækar heimildir til inngripa í rekstur fyrirtækja og jafnvel þjóðnýtingar þeirra. Vísanir í fordæmið láta ekki á sér standa og meira að segja þingmenn hafa stungið upp á því að fiskveiðiheimildir verði þjóðnýttar í kjölfarið. Þess hefur einnig verið krafist að eigur „auðmanna“ verði ýmist frystar eða þjóðnýttar án dóms og laga og án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um saknæmt athæfi.
Með lögunum var jafnframt breytt samningsbundinni kröfuröð fjármálafyrirtækja afturvirkt. Þannig að innstæðueigendur voru færðir fram fyrir skuldabréfaeigendur. Fróðlegt verður að sjá hvaða augum dómstólar landsins líta það í framtíðinni
Loks er óvenjulegasta ákvæðið í lögunum er í 5. grein:
Ákvæði IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein. Forstjóri, starfsmenn og stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins eru ekki skaðabótaskyldir vegna ákvarðana og framkvæmdar samkvæmt þessari grein. |
Ætli embættismenn almennt standist þá freistingu í framtíðinni að fá inn slík lagaákvæði um störf sín?