Laugardagur 8. nóvember 2008

313. tbl. 12. árg.

Í Fréttablaðinu í dag skrifa Heiðar Már Guðjónsson framkvæmdastjóri hjá Novator og Ársæll Valfells  lektor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ um þann möguleika að Ísland taki einhliða upp annan gjaldmiðil, skipti krónunni út fyrir annan gjaldmiðil.

Það er mjög mikilvægt að þessum möguleika sé haldið til haga. Hinir kostirnir eru að halda krónunni eða ganga í Evrópusambandið. Þeir kostir eru hins vegar báðir líklegir til að valda mjög miklum deilum í þjóðfélaginu í mörg ár. Það er eiginlega útilokað að friður verði um krónuna en sérstaklega myndi aðildarumsókn að ESB kalla yfir þjóðina margra ára deilur og þjóðaratkvæðagreiðslur um stjórnarskrárbreytingar og aðildina sjálfa. Aðildarumsókn myndi ekki aðeins kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar heldur einnig stjórnmálaflokkana, samtök atvinnulífsins og samtök launafólks. Næstu árum er líklega betur varið í ýmislegt annað en slíka sundrungu.

Heiðar og Ársæll skrifa:

Einhliða upptöku annars gjaldmiðils er oft ruglað saman við fastgengisstefnu (currency board). Með fastgengisstefnu er átt við að þjóðríkið viðhaldi eigin gjaldmiðli áfram og miði verðmæti gjaldmiðilsins við gjaldeyrisforða. Sú leið var farin í Argentínu og árangur hennar umdeildur.

Með upptöku gjaldmiðils felst aftur á móti afnám gengisstefnu með öllu og afsal stjórnar peningamála til annars seðlabanka. Útgáfu innlendrar myntar er þar með hætt. Sú leið var farin í El Salvador og Ekvador árið 2000-2001. Í heild eru það níu sjálfstæð ríki í heiminum sem nota bandaríkjadollar sem lögeyri. Þess má einnig geta að utan Evrópusambandsins eru sex smáríki sem nota evru sem sinn gjaldmiðil

Fræðilega má segja að á Íslandi sé til fordæmi fyrir því að skipta út öllum seðlum og mynt í umferð. Það var gert þegar slegin voru af þrjú núll í byrjun níunda áratugarins. Það var mun flóknari aðgerð en sem felst í einhliða upptöku á gjaldmiðli. Ástæðan er að íslenskt fjármálakerfi er mjög rafvætt og lítið af seðlum og mynt í umferð. Íslenska bankakerfið og fjármálakerfið er mjög sjálfvirkt og sumir hagfræðingar hafa rætt þann möguleika að sleppa pappír og mynt í kerfinu með öllu.

Þessi sjónarmið þeirra Heiðars Más og Ársæls hljóta að koma til nánari skoðunar. Þótt fyrr hefði verið.

ÍÍ bandarísku kosningabaráttunni var því oft haldið fram að fjölmiðlar þar úti hefðu engan áhuga á því er kynni að fella nokkuð á glansmyndina af Barack Obama en hefðu þeim mun meiri áhyggjur af því að framboð Söruh Palin kynni að verða repúblikönum vítamínsprauta. Sjónvarpsstöðvar og „stórblöð“, sem ekkert höfðu enn sagt nema fagurgala um Obama og stórtíðindin og þroskann sem fælust í kjöri hans, sendu tugi lögfræðinga og fréttamanna til Alaska til að grafa eitthvað upp um Söruh, til að slá á hrifninguna sem framboð hennar vakti í upphafi. Síðan gengu látlausar fréttir um spillingu hennar og almenna óhæfni. Gerðar voru reglulegar skoðanakannanir um það hvort hún væri hæf til að gegna embætti, álitsgjafar voru reglulega spurðir um það sama og flest tækifæri voru notuð til að vara við konunni. En ekkert sást nema fallegt þegar blessaður Obama var annars vegar. En þarna hefur bandarískum fjölmiðlum sennilega verið gert rangt til. Síðastliðinn þriðjudag birtu þeir samviskusamlega frétt um að komið hefði í ljós að ásakanir um spillingu Palin í Alaska væru rangar og hún væri hreinsuð af öllu. Daginn eftir, miðvikudaginn, fóru stóru fjölmiðlarnir vandlega yfir loforð Obama og komust að því að þau yrðu gríðarlega kostnaðarsöm og hann hefði lofað öllum öllu. Væri því mikilvægt að búast ekki við of miklu af honum fyrst í stað og forðast vonbrigði.

J á hugamál fjölmiðla eru misjöfn. Íslenskir fréttamenn hafa gríðarlegan áhuga á mótmælum og að þau séu haldin sem oftast. Undantekningarlítið gæta þeir þess að auglýsa þau vandlega í fréttatímum, rétt eins og þau geti verið fréttnæm áður en þau hafa verið haldin. Ríkisútvarpið hefur lengi verið sérstaklega áhugasamt og sami áhugi hefur fyrir nokkru tekið sig upp á netútgáfu Morgunblaðsins í kjölfar breytinga þar innanhúss. Í gær náði netútgáfa Morgunblaðsins nýju meti þegar um morguninn voru væntanleg mótmæli við höfuðstöðvar VR boðuð sem mikil frétt, og eftir að þau höfðu verið haldin var aðalfrétt dagsins stríðsfyrirsögn um kröfu fundarmanna og mynd af manni hrópandi í gjallarhorn. Inni í fréttinni kom fram að þátttakendur voru fimmtán.

Auðvitað mega menn mótmæla. En mótmæli eru ekki fréttnæm áður en þau eru haldin. Og alls ekki alltaf eftir á. Og fyrst minnst er á mótmæli. Mótmælendur verða mjög kátir þegar þeim tekst að koma myndum af fólki sem brennir fána eða syngur baráttusöng verkalýðsins í erlenda fjölmiðla. Hefur einhver velt því fyrir sér hvort og þá hver áhrif þessar fréttir hafa á möguleika íslensks viðskiptalífs og stjórnvalda að fá hingað erlent fjármagn?