Þ að mun vera mikil reiði í þjóðfélaginu. Svo segir að minnsta kosti maðurinn sem er á góðum launum hjá Ríkissjónvarpinu við að dreifa slúðri og rætnum ásökunum um netið þegar hann er ekki í baði í Marmarahafi. Og víst er að nú eru góðar aðstæður fyrir pólitíska upphlaupamenn og framagosa. Vafalaust eru hugsa margir slíkir sér gott til glóðarinnar næst þegar kosið verður til þings og sveitarstjórna. Ætli geti nokkuð stöðvað nýja frambjóðendur og flokka?
Jú þetta:
Alþingi samþykkti í desember 2006 frumvarp til laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, sem sníður stjórnmálaflokkum og frambjóðendum mjög þröngan stakk til fjáröflunar. Um leið verður opinber stuðningur við þá stjórnmálaflokka sem þegar eiga fulltrúa á Alþingi aukinn verulega. Frumvarpið var lagt fram 5. desember, fyrsta umæða fór fram 8. desember og frumvarpið var samþykkt án mótatkvæða 9. desember en þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Litlar umræður urðu um frumvarpið í þinginu enda frumvarpið lagt fram af formönnum allra stjórnmálaflokkanna. Stjórnmálaflokkarnir voru að greiða atkvæði um eigin tillögur í eigin málum. Það var ekki eins og frumvarpið hafi komið utan úr bæ eftir miklar umræður í þjóðfélaginu. Það var samið af fulltrúum flokkanna.
Lögin kveða á um að flokkar og frambjóðendur verði skyldaðir til að birta ákveðnar upplýsingar um styrkveitendur og upphæð styrkja. Hömlunar á frjálsa fjáröflun og hinir auknu ríkisstyrkir eru þó alls ekki nauðsynleg forsenda þess að flokkar og frambjóðendur búi við skyldu til að upplýsa um fjármál sín. Fulltrúar flokkanna fimm sem sæti áttu í nefndinni ákváðu hins vegar að bæta sér upplýsingaskylduna upp með því að veita sér ríflegan ríkisstyrk og setja um leið hömlur á frjálsa fjáröflun nýrra keppinauta.
Það er með öðrum orðum búið að takmarka mjög möguleika nýrra flokka til fjáröflunar og styrkja stöðu flokkanna sem þegar eiga sæti á þingi með auknum framlögum úr ríkissjóði. Framboð til þings og sveitarstjórna verða framvegis aðeins ætluð boðsgestum ríkisins.