Fimmtudagur 6. nóvember 2008

311. tbl. 12. árg.

M ánuðina fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum höfðu fréttamenn miklar áhyggjur af því að hluti kjósenda kynni að láta kynþátt forsetaefnanna ráða atkvæði sínu. Fylgdu þeim áhyggjum oft umvöndunarorð um fáfræði og umburðarlyndisskort þeirra sem þannig færu að ráði sínu.

Síðustu vikurnar hömruðu álitsgjafar af vinstrivængnum mjög á því sem þeir sögðu að nefndist „Bradley-áhrifin“ og snerist í stuttu máli um það að hræsnarar segðust í könnunum ætla að kjósa Obama en í kjörklefanum gerðu þeir svo eitthvað allt annað. Var þarna sífellt gefið til kynna að heilbrigða afstaðan væri sú að kjósa Obama, en þeir sem það gerðu ekki væru vel hugsanlega kynþáttahatarar. Með þessu móti var lögð mikil pressa á alla þá sem einhvern tíma höfðu sagst hallast að Obama að skipta nú ekki um skoðun: Ef einhver hættir við að kjósa Obama þá hefur hann sennilega aldrei ætlað sér að kjósa hann, bévítans kynþáttahatarinn.

Skiljanlega hneykslast menn á þeim kjósanda sem lætur litarhátt ráða atkvæði sínu. En að vísu nær sú hneykslun aðeins til hvítra manna sem það gera. Enginn gerir athugasemdir við að yfir 90 % blökkumanna kjósi ekki hvíta frambjóðandann. Þar er sko ekki um það að ræða að menn séu að láta litarhátt ráða atkvæði sínu eins og einhverjir kynþáttahatarar.

MM isjafnt er það sem þykir fréttnæmt í kosningunum. Nær allan bandaríska kjördaginn stóð á upphafssíðu textavarps Ríkissjónvarpsins áríðandi tilkynning: „Obama er búinn að kjósa“. Líklega hefur þessari stórfrétt verið beint að kosningasmölum demókrata. Þeir hafa verið búnir að merkja við hann í skrám sínum sem jákvæðan og hefðu eytt dýrmætum tíma í að sækja hann og keyra á kjörstað, ef Ríkisútvarpið hefði ekki hamrað á þessu allan kjördaginn. Síðdegis birtist síðan frétt um að John McCain hefði líka kosið og staðan því orðin jöfn.

E nn furðulegri frétt birtist á vefsíðunni Vísi.is. Þar var um kosninganóttina greint frá því að álitsgjafinn óþreytandi, Egill Helgason, væri farinn að sofa en hefði óskað þess að Obama yrði orðinn forseti þegar hann vaknaði.