Miðvikudagur 5. nóvember 2008

310. tbl. 12. árg.

M örgum þótti það snjallt útspil á dögunum hjá Steingrími Sigfússyni að stinga upp á því að Íslendingar tækju upp norska krónu. Steingrímur fékk einhverja vinstri græna kollega sína í Noregi, gott ef ekki vinkonu sína í norska fjármálaráðuneytinu, til að spila með. Þar til Ingibjörg Sólrún bað Stoltenberg að slá málið út af borðinu.

Íslendingar eiga lítil viðskipti við Noreg og norska krónan er í raun í sama stærðarflokki og sú íslenska. Það væri því eiginlega ekkert unnið með því að nota norska krónu hér.

Ef Steingrímur hefði verið svolítið klókur í stjórnmálum, prófað það svona einu sinni á ferlinum, hefði hann átt að bjóða upp á fleiri kosti. Í öllum stjórnmálaflokkum er áhugi á því að finna aðra lausn á gjaldeyrismálum þjóðarinnar en blessaða krónuna. Samfylkingin útilokar að vísu annað en evruna og aðild að Evrópusambandinu. Í Sjálfstæðisflokknum eru menn hins vegar tilbúnir til að ræða fleiri möguleika, ekki síst möguleika á alþjóðlegri mynt sem neyðir Íslendinga ekki inn í Evrópusambandið. Þar koma einkum þrjár myntir til greina, jen, franki og dalur.

En Steingrímur hefur sem fyrr mestan áhuga á því að mála sig út í horn.

Þ að sem er þó áhugaverðast í þessu sambandi er ekki hvaða ríkismynt, króna, dalur,evra, franki, er heppilegust heldur hvort ríkisvaldið eigi yfirleitt að sinna útgáfu peninga. Íslendingar hafa til að mynda hörmulega reynslu af því að treysta ríkisvaldinu fyrir þessari þjónustu. Áratugum saman hafa þeir mátt þola að seðill frá Seðlabanka Íslands rýrni í verði á meðan menn labba með hann út í búð. Hann hefur heldur ekki verið gjaldgengur utan landssteinanna.

Og það er ekkert náttúrulögmál að ríkið hafi einokun á þessari þjónustu eins og Vefþjóðviljinn hefur stundum sagt frá.

Einkaaðilar hafa oft veitt þessa þjónustu með góðum árangri. Einkaaðildar stunda þessa þjónustu með óbeinum hætti í dag. Bankar gefa til dæmis út ferðatékka. Ekki er mikill munur á hefðbundinni seðlaprentun og útgáfu ferðatékka. Slíkir tékkar eru teknir góðir og gildir um allan heim séu útgefendurnir bankar sem njóta trausts. Jafnvel smábankar á Íslandi geta gefið slíka tékka út. Þetta er dæmi um einkaseðlaprentun sem gengið hefur vel.

Einkareknu seðlabankarnir gáfu flestir fyrirheit um að myntina mætti leysa út fyrir ákveðið magn af gulli eða silfri eða jafnvel kopar. Einkabankar sem gefa út seðla hafa starfað í ýmsum löndum á ýmsum tímum. Sem dæmi má nefna Skotland á árunum 1716 til 1844, Nýja England á árunum 1820 til 1860, Kanada á árunum 1817 til 1914 og Kína 1644 til 1928. Einkabanka í seðlaútgáfu hefur raunar mátt finna í yfir 60 löndum. Þegar þessi saga eru skoðuð virðist útgáfa peninga á vegum einkabanka oftast hafa verið farsæl. Þar sem samkeppni var milli banka um seðlaútgáfu var það hagur bankanna að seðlum þeirra mætti skipta fyrir seðla annarra banka, á sama hátt og það er hagur banka í dag að viðskiptavinir geti tekið út fé í hvaða hraðbanka sem er.

Binding við gull eða aðra málma hélt einnig aftur af möguleika bankanna til seðlaprentunar og dró úr hættu á verðbólgu. Einkabankar geta auðvitað sett prentvélarnar í gang eins og seðlabankar á vegum ríkisins hafa gert, aukið framboð á seðlum, fellt þá í verði og valdið verðbólgu. En þeir gera það aðeins einu sinni. Einkarekinn seðlabanki þarf að halda viðskiptavinum sínum ánægðum eins og önnur einkafyrirtæki. Ef hann fellir gjaldmiðill sinn í verði með offramboði snúa viðskiptavinirnir sér annað. Seðlabanki ríkis sem hefur einkarétt á peningaútgáfu getur hins vegar leikið þetta aftur og aftur án þess að viðskiptavinir hans fái rönd við reist. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að stjórnvöld um allan heim geta ekki hugsað sér að láta öðrum eftir að gefa út gjaldmiðla.