Í dag munu Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta. Mánuðum saman hefur Barack Hussein Obama haft úr mun meira fé að spila en keppinautar hans, fyrst í forkosningingum demókrata og svo nú í forsetakosningunum sjálfum. Fyrir nokkru tókst honum svo að ná umtalsverðu forskoti í skoðanakönnunum á keppinaut sinn úr Repúblikanaflokknum. Obama hefur síðustu vikurnar haft fjóra dali til ráðstöfunar fyrir hvern einn sem John McCain ræður yfir. Skilar það sér ekki aðeins í margföldum auglýsingum heldur einnig gríðarlegum fjölda launaðra starfsmanna sem sjá um að skrá fólk á kjörskrá og draga það svo á kjörstaðinn í dag.
Það er einn kostur við þetta. Fjölmiðlamenn hafa skyndilega engar áhyggjur af því að neinn sé að „kaupa kosningar“, eða að „peningarnir ráði“.
En því miður munu þær áhyggjur einhvern tíma vakna að nýju. Sennilega verður það næst þegar frambjóðandi repúblikana hefur meira fé en góði demókratinn.
H vað ætla íslenskir fréttamenn lengi að bjóða áhorfendum upp á dagskrárefnið: „Samfylkingarmaður kemur fram undir nafninu kennari í stjórnmálafræði og spáir klofningi og hrakförum hjá Sjálfstæðisflokknum ef flokkurinn tekur ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í helstu málum“? Þetta dagskrárefni hefur verið birt með hléum í tuttugu og fimm ár, fyrst með Svan Kristjánsson í aðalhlutverki, síðan oftast Ólaf Þ. Harðarson eða Gunnar Helga Kristinsson. Baldur Þórhallsson hefur stundum leikið gestahlutverk en yfirleitt er hann upptekinn við sýningar á verkinu Smáríki ráða í raun öllu í Evrópusambandinu, eftir hann sjálfan og Ólaf Þ. Stephensen, manninn sem vegna langvarandi Evrópuákafa síns gæti náð því að verða ekki aðeins fyrsti formaður Evrópusamtakanna heldur einnig síðasti ritstjóri Morgunblaðsins.