Helgarsprokið 2. nóvember 2008

307. tbl. 12. árg.

R

„Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu.“ – Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra 3. september 2008.

áðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar lýstu nýlega yfir miklum vilja til þess að fá Alþjóða gjaldeyrissjóðinn að málum hér á landi. Þeir höfðu jafnframt, eins og margir aðrir, lýst óánægju með háa stýrivexti Seðlabanka Íslands að undanförnu. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn setti það hins vegar sem skilyrði fyrir aðstoð við Ísland að vextir yrðu hækkaðir úr 12% í 18%. Það samþykktu ráðherrar Samfylkingarinnar fyrir sitt leyti. Seðlabankinn hafði nýverið lækkað vextina úr 15% í 12% svo samkomulagið við Alþjóða gjaldeyrissjóðsins var þvert á þá ákvörðun seðlabankans.

En síðan ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar tóku þessa ákvörðun um hækkun vaxta í 18% hafa þeir reynt að fría sig ábyrgð á henni.

Að auki eru upplýsingar farnar að leka af ríkisstjórnarfundum, sem hefur eiginlega ekki gerst síðan kratarnir voru síðast í stjórn á árunum 1991 til 1995.

Það er ekki gæfulegt fyrir ríkisstjórnarsamstarf að menn reyni að skjóta sér undan ábyrgð og koma henni yfir á samstarfsmenn sína með þessum hætti.

Og það er allt á sömu bókina lært hjá Samfylkingunni. Ráðherrar hennar reyna kerfisbundið að hylja slóð sína. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra afþakkar sjaldan athygli fjölmiðla. Hann eyddi degi með Jóni Ársæli á sama tíma og atvinnugreinin sem undir hann heyrir hrundi til grunna. Björgvin lokaði heimasíðu sinni nú í október þótt hún hafi verið uppfærð reglulega, ólíkt síðum margra annarra þingmanna. Verið er að endurskoða og breyta vefsvæðinu bjorgvin.is, segir nú á síðunni. Svona eins og ekki sé mögulegt að endurskoða vefi án þess að loka þeim á meðan.

Áður en síðunni var lokað mátti finna þar eftirfarandi vísdóm ráðherrans dagsettan 5. september 2008:

Þegar KB banki opnaði útibú í Lúxemborg fyrir nokkrum árum óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það.

Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ekki síst þegar lagt er saman við aðra útrás Íslendinga erlendis í verslun, iðnaði og þjónustu ýmiskonar.

Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingarævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einu sinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma.

Í árslok 2006 má ætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu um 60 milljörðum. Í fyrra komu 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá og þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankanna stefnir þróunin þar í sömu átt. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás fjármálageirans hefur orðið afgerandi þýðingu í okkar efnahagslífi.

Íslensku bankarnir hafa sums staðar sætt nokkurri gagnrýni undanfarið erlendis. Sérstaklega fyrir að vera ekki nógu burðugir og um of háðir skammtímafjármögnun. Um forsendur gagnrýninnar sem skapaðist vorið 2006 hefur verið fjallað um rækilega, meðal annars af Fredirik Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni. Niðurstaðan er sú að gagnrýnin var að verulegu leiti tilhæfulaus. Hinsvegar var ljóst að bankarnir þyrftu að fjármagna sig betur og til lengri tíma og að koma þyrfti betur á framfæri upplýsingum um rekstur þeirra.

Samskonar gagnrýni skýtur upp kollinum á nú í kjölfar þeirrar lausafjárkreppu sem kennd er við undirmálslán. Hún er þó ekki einskorðuð við íslenska banka, þar sem vandinn er alþjóðlegur.

Athygli vekur þó að háværasta gagnrýnin kemur frá samkeppnisaðilum bankanna á erlendum vettvangi. Löngum hafa sérfræðingar Danske bank haft horni síðu íslensku bankanna en fyrir skemmstu bættust Finnskir bankamenn í “grátkórinn”.

Aðstoðarmenn Nordea í Finnlandi, Markku Pohojla, gefur til dæmis opinberlega í skyn að íslensku bankarnir munu fljótlega lenda í miklum vandræðum. Hann gengur jafnvel svo langt að gera því skóna að íslensku bankarnir verði ekki til staðar eftir nokkra mánuði. Þessi stóru orð finnska bankamannsins byggja ekki á neinni greiningu á íslensku bönkunum. Nýleg ítarleg úttekt á stöðu þeirra og íslenska fjármálakerfisins alls, eftir þá Friðrik Má Baldursson og Richard Portes, gefur til að mynda ástæðu til að ætla að staðan tiltölulega góð í alþjóðlegu tilliti.

Gagnrýnin hlýtur því að skoðast í því samhengi að a.m.k. tveir íslenskir bankar, Glitnir og Kaupþing, hafa hafi sókn inn á markað fyrir sparifé í Finnlandi, með svipuðum hætti og Landsbankinn hefur áður gert í Bretlandi. Þessi markaðssókn kemur sér vitanlega illa fyrir Nordea sem til þessa hefur ekki treyst sér til að bjóða jafn góð kjör og íslensku bankarnir bjóða.

Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessara tveggja lykilstofnanna gefa ekkert annað til kynna en að íslensku bankakerfið sé mjög stöndugt.

Í ofanálag eru innlán Finna í íslenskum bönkum tryggð með innistæðutryggingum. Að því leiti til sem finnskar reglur þar að lútandi veita betri réttindi en íslenkar myndu bankar bæta tjón sparifjáreigenda ef svo ólíklega vildi til að einhverjir bankar kæmust í lausafjárskort.

Því er rétt að halda því til haga sem rétt er þegar reynt er að kasta rýrð á fjármálastofnanir okkar þegar kreppir að.

Til að fara yfir stöðuna og til að efla samvinnu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja um fjárfestingar erlendis mun Viðskiptaráðuneytið kalla til fundar með Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðs í janúar. Ætlunin er að skapa varanlegan vettvang fyrir slíkt samstarf og verður janúarfundurinn fyrsta skrefið í þá átt.