Laugardagur 1. nóvember 2008

306. tbl. 12. árg.
Starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis.
36. gr. Tilkynning um stofnun útibús.

Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku fullnægjandi upplýsinga skv. 2. mgr. Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum þess ríkis þar sem það starfrækir útibú um hverjar þær breytingar sem kunna að verða á áður veittum upplýsingum skv. 2. mgr. eigi síðar en einum mánuði áður en fyrirhugaðar breytingar koma til framkvæmda.
-Úr 36. grein  laga um fjármálafyrirtæki.

F rá því snemma árs þrýsti Fjármálaeftirlitið á Landsbankann að færa Icesave reikninga sína í dótturfélag bankans í Bretlandi. Reikningarnir voru orðnir yfir 150 þúsund og hverjum þeirra fylgdi 20 þúsund evra ábyrgð Tryggingasjóðs innistæðueigenda hér á landi. Það samsvarar öllum tekjum ríkissjóðs á síðasta ári eða 450 milljörðum króna á núverandi gengi. Í Tryggingasjóðnum voru hins vegar aðeins örfáir milljarðar.

Þegar það lá fyrir í byrjun árs að ábyrgð Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna Icesave væri orðin óbærileg kemur spánskt fyrir sjónir að Landsbankinn hafi fengið að hefja söfnun á innlánum í Hollandi í maí. Um 120 þúsund Hollendingar lögðu næstu mánuði 20 þúsund evra ábyrgð hver á Tryggingasjóð innistæðna á Íslandi með einum músarsmelli. Í tilkynningu frá Landsbankanum í lok maí kemur einnig fram að bankinn ætli að bjóða Icesave í fleiri löndum Evrópu. Holland sé aðeins fyrsti áfanginn á meginlandinu.

En það var ekki nóg með að Landsbankinn hæfi söfnun aukinna ábyrgða á íslenska Tryggingasjóðinn í Hollandi heldur bættust um 70 þúsund Bretar í hóp þeirra sem spöruðu á ábyrgð hins örsmáa Tryggingasjóðs hér á landi, eftir að fjármálaeftirlit Íslands og Bretlands gerðu athugasemd.

Það er alveg ljóst að fjármálaeftirlitið hér á landi hafði heimild í lögum til að koma í veg fyrir stofnun útibúsins í Hollandi samkvæmt 36. grein laga um fjármálafyrirtæki. Þessi heimild er meira að segja rýmri en Íslendingum bar að leiða í lög samkvæmt tilskipunum ESB. Í greinargerð um þessa grein frumvarpsins segir:

Hér er fjallað um upphafsaðgerðir vegna stofnunar útibús íslensks fjármálafyrirtækis í öðru EES-ríki. Ákvæðin eru í samræmi við 20. gr. tilskipunar 2000/12/EB og eru að mestu efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Þó er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti bannað stofnun útibús ef ástæða er til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða fjármálafyrirtækisins sé ekki nægjanlega traust, fremur en að það neiti einungis að senda fyrirhuguðu gistiríki staðfestingu. Þetta er í samræmi við tillögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerði úttekt á íslenska fjármálamarkaðnum á árinu 2001.

Íslenska fjármálaeftirlitið verður vafalítið gagnrýnt harðlega á næstu misserum fyrir að nýta ekki þessa heimild til að stöðva Icesave í Hollandi.

I

Prinsippafstaða að fyrrverandi pólitíkusar séu ekki í forystu Seðlabankans segir sú sem sat í bankaráðinu 2003 – 2005 sem einn slíkur.

ngibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að Samfylkingarmenn séu „þeirrar skoðunar að fyrrverandi pólitíkusar eigi ekki að vera í forystu fyrir seðlabanka. Þetta er prinsippafstaða hjá okkur og hefur komið fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.“

 Jón Sigurðsson fyrrvarandi ráðherra og þingmaður Alþýðuflokksins og höfundur efnahagsstefnu Samfylkingarinnar fyrir þingkosningar 2007 er varaformaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Ætli hann teljist ekki fyrrverandi pólitíkus að mati utanríkisráðherra? Hver tilnefndi Jón í forystu bankans? Jón Sigurðsson er einnig formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, skipaður af viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat sjálf í bankaráði Seðlabanka Íslands árin 2003 til 2005.

Þetta er prinsippafstaða hjá okkur.