E kki allir fjölmiðlar búa við það að vera í eigu aðila sem einnig eiga mjög ríka aðra hagsmuni en blaðaútgáfu. Ekki eru allir fjölmiðlar heldur í herferð fyrir einhverjum baráttumálum, hvort sem er eigenda sinna eða starfsmanna. Einn fjölmiðill, viðskiptavefurinn T24.is, sem er í eigu og undir ritstjórn Óla Björns Kárasonar og Jónasar Haraldssonar, bendir til dæmis oft á eitt og annað sem hinum þykir ekki áhugavert.
Á dögunum rifjaði vefurinn upp nýlegt efni úr viðskiptahluta Fréttablaðsins. Um síðustu áramót valdi dómnefnd á vegum blaðsins bæði viðskiptamann nýliðins árs og þrjú bestu viðskipti ársins. Viðskiptamaður ársins var valinn Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Stoða. Þrenn bestu viðskipti ársins voru valin sala Novators á búlgarska símanum, ICESAVE-reikningar Landsbankans og hlutafjáraukning Baugs Group í FL Group.
Dómnefnd skipuðu flestir úrvalsmenn landsins. Má þar fræga telja Ólaf Ísleifsson, Ágúst Einarsson, Eddu Rós Karlsdóttur, Jón Þór Sturluson, Vilhjálm Egilsson, Höllu Tómasdóttur og Þórð Friðjónsson ásamt nokkrum öðrum sem standa þeim skammt að baki.
Hér eru á ferð virtir hagfræðingar sem full ástæða er til að séu sem oftast í viðtölum til að vísa veginn út úr kreppunni, enda flestir ef ekki allir í dómnefndinni sem sáu allt fyrir, eins og hagfræðingar almennt munu nú hafa gert flestir.
Það er eingöngu af fórnfýsi sem allir hagfræðingarnir og fræðimennirnir sem sáu allt fyrir, stilltu sig um að notfæra sér spádómsgáfu sína til að hagnast sjálfir meðan tækifæri var til og þeir skildu það sem öllum öðrum var hulið.