Þ egar ljósvakamiðlar eru fullir af efnahagsástandi en vefmiðlar fullir af álitsgjöfum í bland við skammir og svívirðingar undir skammstöfunum og dulnefnum, er tilvalið fyrir fólk sem vill halda ró sinni að slökkva á síbyljunni og setjast niður með góða bók. Jólabækurnar koma nú í búðirnar ein af annarri og margt virðist verða bitastætt í boði í ár.
Bókaforlagið Skrudda hefur sent frá sér skáldsögu sem vekja mætti talsverða athygli. Litla stúlkan og sígarettan eftir Frakkann Benoît Duteurtre gerist í óskilgreindu framtíðarlandi, sem virðist raunar nálægt hvort sem mældur er tími eða vegalengd. Í þessu framtíðarlandi hefur mannkynið náð jafnvel enn lengra á þroskabrautinni en á síðustu áratugum; óvinir þjóðarinnar eru einkum tveir hópar sem allt menntað og meðvitað fólk bæði óttast og fyrirlítur: reykingamenn og svo þeir sem ekki eru allan daginn með hugann við það sem er börnum fyrir bestu. Að þessu frátöldu eru mikilvægustu umhugsunarefni ráðamenna almenningssamgöngur og barátta gegn einkabílnum.
Aðalpersóna sögunnar er aldrei nafngreind, ekki fremur en Jósef K. bar eftirnafn í Málaferlum Kafkas, en um margt svipar þeim saman. Á þeim er að vísu sá munur að Jósef fékk aldrei að vita fyrir hvað hann var tekinn fastur og síðar dæmdur, en söguhetjan í Litlu stúlkunni og sígarettunni kemst heldur betur að því hvað sér er gefið að sök.
Bókin hefst á því að fangelsisstjóri nokkur er kominn í bobba. Hann þarf að annast aftöku dauðadæmds fanga sem gerist svo frakkur að biðja um sígarettu þegar honum er boðið hinsta óskin. Til reynist gömul lagagrein sem veitir manninum skýran rétt til slíks, en því miður, „viðbótarreglugerð, sem bannaði alfarið notkun tóbaks innan veggja fangelsisins, hafði verið bætt við ári áður vegna þrýstings frá samtökum sem berjast fyrir lýðheilsu.“ Verður úr þessu mikil rekistefna og klór í hárssverði þar til útbúinn er reykingaklefi í kílómetra fjarlægð þar sem varðmenn standa með gasgrímur svo þeir verði ekki fyrir óbeinum reykingum. Og er þá sagan af hinum dauðadæmda fanga rétt að hefjast.
Aðalpersónan er hins vegar embættismaður hjá borginni. Sá reykir í laumi með ærinni fyrirhöfn, lokar sig inni á litlu salerni á skrifstofunni og stelst þar í reykinn. Þar kemur að honum ung stúlka, enda eru borgarskrifstofurnar fullar af börnum sem fá að valsa um allt í boði hins nútímalega borgarstjóra. Stúlkan sem verður fyrir hinu mikla áfalli að sjá manninn reykja klagar hann vitaskuld og bætir heldur í ásakanirnar. Og í hinu mannúðlega framtíðarþjóðfélagi gildir sú regla að alltaf verður að „trúa barninu“ og þá fyrst er borgarstarfsmaðurinn óheppni kominn í klandur. Ekki verður þrautaganga hans rakin nánar hér en óhætt er að segja að heldur gefi nú á bátinn hjá blessuðum manninum eftir því sem á liður.
Sagan um litlu stúlkuna og sígarettuna sýnir hvílíkar hremmingar velmeinandi ríkisvald getur lagt á borgarana. Fleira eru höfundi hugleikið, raunveruleikaþættir sjónvarpsins, arabískir hryðjuverkamenn og börn sem tala og syngja þegar foreldrar þeirra eru með gesti eru meðal þess sem kemur við sögu. Þó söguþráðurinn sé nokkuð svartur er bókin skemmtilega skrifuð og óhætt að mæla með henni við þá sem vilja skemmtilega lesningu sem vekur til umhugsunar um nútímann og hver næstu skref lýðheilsumanna verða.