Í gær var kosinn nýr forseti Alþýðusambands Íslands. Í framboði var að þessu sinni kona, þrautreynd í verkalýðshreyfingunni og raunar varaforseti Alþýðusambandsins. Einhverra hluta vegna heyrðist aldrei orð um það opinberlega að nú gæfist verkalýðshreyfingunni raunhæft færi á að velja konu til forystu. Hvergi var tekið viðtal við hefðbundnar baráttukonur kvennahreyfingarinnar um hvað það væri nú mikilvægt að að kona yrði kosin og slæm „skilaboð til kvenna“ ef það yrði ekki gert. Eftir kosninguna, þegar konunni sem gegndi embætti varaforseta var hafnað sem forseta, er ekki sagt eitt einasta orð um það í fréttum eða stjórnmálum að þetta sýni að „konum sé ekki treyst“, eins og jafnan heyrist þegar kona nær ekki þeim árangri sem hún vildi, til dæmis í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins.
Hér spilar vitaskuld ekki inn í að Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, sem tapaði fyrir skrifstofumanni Alþýðusambandsins, er sterklega grunuð um að vera sjálfstæðismaður. Það er auðvitað ekki ástæðan fyrir því að skyndilega hefur enginn áhyggjur af því að „kona tapaði“ hjá Alþýðusambandinu og engum fannst fyrir kosninguna áríðandi að fá „konu til ábyrgðar“. Eftir kosninguna þykir engum sem tap Ingibjargar sýni að Alþýðusambandið „treysti ekki konum“. Sú skýring á tapi kvenna á líka bara við annars staðar.
I ngibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að hún hefði bara ekki haft hugmynd um að gríðarlegar fúlgur hefðu safnast á erlenda innlánsreikninga bankanna. Hvernig ætli fjölmiðlar létu ef einhver annar stjórnmálamaður hefði sagt slíkt? Ætli einhver fjölmiðlamaður hefði lagt á sig að finna fréttir og uppgjör, fréttatilkynningar og sjálfshól bankanna, sem segði frá snilldarlegum vexti innlánsreikninganna?