B jörgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra gat ekki leynt ánægju sinni á fréttamannafundi í gærmorgun þegar hann kynnti að Íbúðalánasjóður ríkisins myndi taka yfir íbúðalán bankanna eftir því sem færi gæfist. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra er ekki síður uppveðruð yfir því að fá nú tækifæri til að rétta hlut Íbúðalánasjóðs gagnvart bönkunum. Það kallaði hún að „koma lánunum í öruggt skjól“, svona eins og sjálf lánin þyrftu aðhlynningu. Hún sagði jafnframt um lánin „að kjörin á þeim eiga að minnsta kosti ekki að versna“ og gaf fyrirheit um skuldbreytingu, betri kjör en ella hefðu orðið við endurskoðun vaxta, frystingu og jafnvel að þeir sem tóku lán í erlendri mynt verði losaðir við þau á kostnað ríkisins.
Rót þess vanda sem fjármálakerfi heimsins standa nú frammi fyrir er sú stefna að gera fólki mögulegt að taka hærri húsnæðislán en það réði við að greiða. Lágir vextir seðlabanka og dekur ríkisstjórna um nær allan heim við þá sem skuldsetja sig til hins ýtrasta til húsnæðiskaupa gat af sér húsnæðisbóluna sem er að springa framan í heimsbyggðina og setja fjármálakerfið á hliðina.
Íslenska ríkið tók þátt í þessu með rekstri Íbúðalánasjóðs sem atti kappi við viðskiptabankana. Á sama tíma og Seðlabanki Íslands reyndi í örvæntingu að herða peningastefnu sína með vaxtahækkunum vann Íbúðalánasjóður gegn því með lánastarfsemi sinni. Það er svo önnur saga hvort seðlabankinn hafi átt að fara þessa leið því gríðarlegar vaxtahækkanir hans drógu erlent lánsfjármagn til landsins því innlent fjármagn hafði í raun verið verðlagt út af markaðnum.
Vefþjóðviljinn fór yfir stríð Íbúðalánasjóðs við bankana í helgarsproki í vor og þar sagði meðal annars um verðbóluna sem stríðið blés upp og hugsanlegar afleiðingar hennar:
Líklega er farsælasta leiðin sú að leyfa þessari verðbólu að dragast saman og láta markaðinn um að ná eðlilegu jafnvægi. Slík aðlögun verður hins vegar ekki sársaukalaus og fórnarlömb stríðs stjórnvalda við bankana með Íbúðalánasjóð að vopni verða mörg. Þar verða mörg tækifæri fyrir góðviljaðan stjórnmálamann eins og Jóhönnu Sigurðardóttur.
Stjórnvöld geta auðvitað með ýmsum aðgerðum haft áhrif á þróun markaða. Reynsla síðustu fjögurra ára á húsnæðismarkaði bendir hins vegar ekki til þess að stjórnmálamönnum sé treystandi til þess. Því er farsælast að þeir láti markaðinn sem mest afskiptalausan. Íbúðalánasjóður er ekki lífæð fasteignamarkaðarins, heldur hefur hann verið notaður til að byrla honum eitur. |
Nú er þetta allt komið á daginn. Jóhanna Sigurðardóttir beið ekki boðanna. Í gær var kynnt að herða eigi á þessari glórulausu stefnu og engir nema skattgreiðendur þurfi að bera ábyrgð á lánum vegna húsnæðiskaupa. Bæði bankar og viðskiptavinir þeirra, lánveitendur og lántakendur, þurfi litla ábyrgð að bera. Hvernig lítur það út gagnvart þeim sem steyptu sér ekki í skuldir? Er það sanngjarnt svo notað sé orð sem félagsmálaráðherrann notar oft? Er það sanngjarnt að þeir sem fóru varlega við íbúðakaup og söfnuðu fyrir útborgun beri nú kostnaðinn af glannaskap þeirra sem tóku lán fyrir öllu saman?
Hverjir ætli að fari svo verst út úr því að íslenska fasteignaverðbólan mun nú óumflýjanlega springa með hvelli? Líklega þeir sem síðla sumars 2008 keyptu sína fyrstu fasteign og áttu lítið eigið fé. Þetta er einmitt fólkið sem ríkisstjórnin undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra atti út á markaðinn í sumar með því að fella niður stimpilgjöld á lánum vegna fyrstu kaupa og rýmka veðreglur Íbúðalánasjóðs.
Nú kemur eitthvað af þessu fólki til Jóhönnu og hún mun bjóða því meira af glundrinu sem því varð illt af strax í sumar.
Það eru þó ekki nema 10 ár síðan svonefnt félagslegt húsnæðiskerfi var tekið til gjaldþrotaskipta og reikningurinn sendur skattgreiðendum. Stofnandi þess og helsti aðstandandi var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra áranna 1987 – 1994.
Á meðan ríkið reddar öllum alltaf munu fáir sýna aðgát.