E in af annarri riða fjármálastofnanir Vesturlanda nú til falls. Fallið er ekki aðeins dýrt fyrir hluthafa fyrirtækjanna heldur einnig skattgreiðendur víðs vegar í Evrópu og Bandaríkjunum. Fyrir milligöngu ríkisins – ríkissjóða og seðlabanka – leggja skattgreiðendur til ótrúlegar fjárhæðir til að halda rekstri banka og íbúðalánasjóða gangandi.
Þegar upp verður staðið mun ein atvinnugrein að líkum aldrei hafa hlotið aðra eins ríkisaðstoð á einu misseri og fjármálafyrirtæki á vorum tímum.
Það dugði ekki að fyrirtækin hefðu á að skipa starfsmönnum með flottustu prófgráðurnar og langhæstu launin.
Það er auðvitað verulegt áfall fyrir áhugamenn um frjálsan markað þegar stór fyrirtæki úr mikilvægri atvinnugrein flytjast eins og hendi væri veifað til ríkisins. Ríkisrekstur á fjármálastofnunum býður heim hættu sem Íslendingar þekkja af eigin raun. Það er grátlega stutt síðan flestir bankar og sjóðir voru undir stjórn pólitíkusa hér á landi. Vonandi verður veruleg andstaða við að hverfa til þess ástands, pólitískrar skömmtunar og fyrirgreiðslu.
En þótt mörg fjármálafyrirtæki Vesturlanda hafi verið einkarekin undanfarna áratugi hafa þau spilað á opinberum velli, undir eftirliti og eftir reglum ríkisins. Engin fyrirtæki lúta jafn ströngum reglum og miklu eftirliti ríkisins og bankar og aðrar fjármálastofnanir. Vaxtastefna, stýrivextir, seðlaprentun, peningamagn og bindiskylda bankanna eru nokkur hugtök sem notuð eru um stjórn ríkisins á fjármálamörkuðum. „Seðlabankinn er banki bankanna“, sagði einn íslensku bankastjóranna er hann gekk út úr Seðlabanka Íslands á sunnudagskvöldið og var spurður af fréttamanni hvaða erindi hann ætti eiginlega í seðlabankann.
Við þessi afskipti í gegnum seðlabanka bætast mikil afskipti hins opinbera af húsnæðismarkaði. Hér á Íslandi er rekinn opinber íbúðalánasjóður og lántaka er niðurgreidd með vaxtabótum. Sömu sögu er að segja frá Bandaríkjunum. Margir rekja upphaf vandræðanna um þessar mundir til húsnæðismarkaðar í Bandaríkjunum en þar blésu tveir sjóðir á ábyrgð ríkisins, Fannie Mae og Freddie Mac, upp verðbólu sem nú hefur sprungið með alvarlegum afleiðingum fyrir fjármálafyrirtæki um allan heim. Það átti að sjálfsögðu einnig mikinn þátt í húsnæðisbólunni þar vestra að stýrivextir voru lágir, skattfríðindi í boði fyrir greiðendur húsnæðislána og sérstök lög í gildi sem eiga að liðka fyrir því að fólk sem ekki stenst almennar körfur um greiðslugetu fái lán til húsnæðiskaupa.
Þegar seðlabankar halda stýrivöxtum lægri en efni standa til er hætt við að ákvarðanir um fjárfestingar séu teknar á röngum forsendum. Seðlabankarnir lúta stjórn ríkisins og það er jafnan mikill þrýstingur frá stjórnmálamönnum að halda vöxtum lágum svo gangur sé í efnahagslífinu fram að næstu kosningum. Skammtímahugsun stjórnmálanna hríslast þannig um allt fjármálakerfið og veldur röngum ákvörðunum.
Á Íslandi eykur það vandann verulega nú um stundir hvernig hið opinbera, ríki og sveitarfélög, hafa hagað fjármálum sínum undanfarin ár. Í góðu atvinnuástandi og auknum kaupmætti tókst stjórnmálamönnunum engu að síður að auka útgjöld hins opinbera svo hressilega að hið opinbera hefur aldrei hirt og eytt stærri hluta af landsframleiðslunni. Nú þegar tekjurnar dragast saman stefnir í mikinn halla á ríkissjóði og vafalítið hinum eyðsluglöðu sveitarfélögum einnig. Svo eru menn hissa á því að ríkissjóður falli í áliti hjá erlendum matsfyrirtækjum.
Lærdómurinn sem menn ættu að draga af hremmingum fjármálafyrirtækjanna er að framvegis verði þau að bera ábyrgð á sér sjálf og ríkið muni aldrei koma þeim til bjargar. Þetta ætti að gilda um fjármálafyrirtæki eins og önnur fyrirtæki. Það gengur ekki lengur að fjármálafyrirtæki séu með bleyju frá ríkinu. Um leið verður ríkið einnig að gefa þeim lausari taum, draga úr eftirliti og afskiptum. Til þess að svo verði þarf auðvitað miklar breytingar á fjármálakerfi heimsins. Einkavæða þarf seðlabanka og aftengja þannig helsta möguleika stjórnmálamanna á að hafa áhrif á verð peninganna, vextina. Opinberir íbúðalánasjóðir og niðurgreiðslur á íbúðalánum þurfa sömuleiðis að hverfa.
Ekkert af þessu er þó líklegt á næstu misserum. Þvert á móti munu stjórnmálamenn um allan heim nota vandræðin til að sölsa undir sig fjármálastofnanir og auka afskipti sín af fjármálamarkaði. Það er því ekkert sem bendir til að þessi fjármálakreppa verði hin síðasta.