Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins, segir að sinn flokkur sé sammála um að vera ósammála um þetta atriði [Evrópumálin]. Hann hafi sjálfur miklar efasemdir nú sem fyrr enda sé ekki rétti tíminn til að sækja um [Evrópusambandsaðild] þegar þjóðin sé veik fyrir. |
– Frétt á Mbl.is 3. október 2008 |
Þ að var kominn tími til að formaður Framsóknarflokksins gengi fram fyrir skjöldu og viðurkenndi að flokkurinn hefði enga stefnu í hinum svokölluðu Evrópumálum og gæti í ofanálag engan veginn komið sér saman um eina slíka. Framsóknarmenn væru einfaldlega sammála um það eitt að vera ósammála um þau mál. Þannig hefur það líka verið lengi og af þeim sökum hefur Framsóknarflokkurinn aldrei lagt í það að mynda sér eiginlega stefnu í málaflokknum.
Fyrir þessu er fyrst og fremst sú ástæða að sennilega er engum íslenskum stjórnmálaflokki eins hætt við alvarlegum klofningi vegna Evrópumálanna og Framsóknarflokknum. Fyrir vikið hefur öll nálgun flokksins við málaflokkinn undanfarin ár byggst á því að skoða og kanna málið og velta því fyrir sér á alla kanta án þess að komast að nokkurri niðurstöðu. Þó hafa til að mynda síðustu flokksþing Framsóknarflokksins bent sterklega til þess að þeir framsóknarmenn sem vilja Ísland áfram sjálfstætt og fullvalda séu í miklum meirihluta innan hans.
En til hvaða bragðs er þá gripið þegar Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki til þess að taka afstöðu í Evrópumálunum? Jú, þá er um að gera að koma þeirri ábyrgð yfir á einhverja aðra. Nefnilega þjóðina. Halda á þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort fara eigi í aðildarviðræður við Evrópusambandið eins og þrír ungir framsóknarmenn hvöttu til í blaðagrein á dögunum fullir uppgjafaranda og greinilega vel meðvitaðir um getuleysi Framsóknarflokksins til að mynda sér stefnu í málaflokknum.
Þremenningarnir sögðu ennfremur í grein sinni að spurningin um Evrópusambandsaðild væri dæmi um mál sem stjórnmálaflokkarnir réðu ekki við sem vitanlega er rangt. Spurningin um Evrópusambandsaðild er hins vegar ágætis dæmi um mál sem Framsóknarflokkurinn ræður augljóslega engan veginn við.