Laugardagur 4. október 2008

278. tbl. 12. árg.

F yrir nokkrum árum var byrjað að tala um að væri sjávarútvegurinn ekki lengur undirstaða neins á Íslandi. Slík væri sigurganga fjármálakerfisins að sjávarútvegurinn skipti litlu í hinu stóra íslenska samhengi.

Nú berast fréttir af því, að nú ætli einhverjir að freista þess að nota vandræði þessa sama fjármálakerfi, vandræði sem glímt er við um allan hinn vestræna heim, sem átyllu til þess að afnema fullveldi Íslands og koma því inn í tollabandalagið ESB.

Fyrst er látið eins og sjávarútvegurinn skipti litlu máli. Næst reyna einhverjir að nota sér áhyggjur margra af efnahagsmálum sínum og annarra til þess að þrýsta hvorki meira né minna en Evrópusambandsaðild í gegn – sem myndi þá ofan á aðra ókosti valda því að erlendum stofnunum yrði í raun falið úrslitavald um íslensk fiskimið.

Þegar lagst var á Bandaríkjaþing á dögunum að samþykkja tilteknar efnahagsaðgerðir gripu sumir þingmenn tækifærið og fengu hengt ýmis gömul baráttumál sín á frumvarpið á lokasprettinum. Þannig tókst þeim að koma í gegn málum sem þeir höfðu lengi barist fyrir árangurslaust. Sú aðferð er þekkt en ekki geðfelld.

Um helgina ætla menn á Íslandi að leggja á ráð um efnahagsaðgerðir. Ekki er gott að segja hvort þar verður margt gert af skynsemi, en óþarfi að andmæla þeim ákvörðunum fyrirfram. En það er yfirgengilegt ef sömu menn og fyrir helgi áttu varla næg orð um nauðsyn samstöðunnar, ætla að fylgja þeim eftir með kröfum um Evrópusambandsaðild. Um hana getur ekki nokkur sátt orðið – og engin aðkallandi vandamál leysir hún, nema léttir á þeim sem hafa haft hana á heilanum við allar aðstæður undanfarna áratugi.