H austhefti tímaritsins Þjóðmála kom út í gær og þar fá áhugamenn um þjóðmál og menningu margt fyrir snúð sinn. Þórdís Bachmann skrifar um ólympíuleika í skugga harðstjórnar og Björn Bjarnason varar við skammsýni í öryggismálum. Vissulega mun grein Óla Björns Kárasonar vekja athygli, en hann fjallar um stöðu Sjálfstæðisflokksins og líst ekki vel á. Stjórnarsamstarf við Samfylkingu telur hann vera óskiljanlegan „bjarghring til pólitískra andstæðinga“ og þingmenn flokksins telur hann ekki mikla bóga heldur stjórnist þeir fremur af „praktískri pólitík“ en hugsjónum. En margt fleira er í Þjóðmálum, þó það veki kannski ekki sömu athygli fyrst í stað og grein Óla Björns.
Gunnar Rögnvaldsson, sem um margra ára skeið hefur stundað viðskipti í Evrópusambandslandinu Danmörku, skrifar mjög þarfa grein um evruna, sem hann segir vera pólitískt verkfæri en ekki efnahagslegt. Algert óráð væri fyrir Íslendinga að taka hana upp sem gjaldmiðil, þeir hefðu af því lítinn sem engan ávinning en tækju sér far á því efnahagslega öðru farrými sem evra hefur reynst. Stöðnun ríkir í evru-löndunum segir Gunnar, og bætir því við að engin áþreifanleg aukning hafi orðið í verslun og viðskiptum milli evrulanda; á 65 % evrusvæðisins sé lítill sem enginn hagvöxtur og viðvarandi atvinnuleysi öll árin.
Vilhjálmur Eyþórsson, blaðamaður, skrifar mikla ádrepu um það sem hann kallar „flathyggju“ – og sé það vaxandi tilhneiging Vesturlandabúa til að leggja allt að jöfnu í nafni mannréttinda og lýðræðis. Að öll menning sé jafngóð og allir séu í raun eins. Þetta er grein sem áhugamenn um póstmódernisma, kynjafræði og fjölmenningu munu líklega ekki telja áríðandi.
Þá er fróðlegt að lesa frásögn af árásunum sem vinstrimenn gerðu á forsvarsmenn undirskriftasöfnunarinnar um Varið land, en sýnishorn eru birt í blaðinu.
Og þá skal síðast en alls ekki síst getið þess efnis Þjóðmála sem áhugamenn um íslenska menningu og afburðahugsun munu fyrst lesa í þessu hefti. „Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir“ sagði sr. Sigurbjörn Einarsson í sinni hinstu predikun nú í sumar. Síðasta predikun sr. Sigurbjörns er upphafsefni Þjóðmála að þessu sinni og er þar talað af lífsreynslu tíræðs manns en einurð ungs.
Margt fleira er í Þjóðmálum og auðvitað sjálfsagt fyrir alla frjálslynda áhugamenn um stjórnmál að vera áskrifendur að blaðinu. Það geta menn gert í Bóksölu Andríkis og þar er einnig hægt að kaupa stök hefti þess. Ekki síður er tilvalið að kaupa áskrift til gjafa handa vinum, kunningjum og læsum óvinum.