J æja, þá er að líta aðeins í Morgunblaðið síðustu daga.
Í sunnudagsblaðinu var talað við Alister E. McGrath, en nýútkomin bók hans, Ranghugmynd Richard Dawkins hefur selst vel í Bóksölu Andríkis síðustu daga. Hann segist fagna þeim tækifærum sem hafi gefist til rökræðna við Dawkins og þá sem fylgja honum að málum. „Rökræður eru góðar því þær gefa fólki kleift að meta málefnin og gera upp hug sinn. Í öðru lagi tel ég að Dawkins hafi á röngu að standa og þess vegna sé mikilvægt að fram fari opinber umræða. Þetta er lítil bók og í henni er brugðist við því sem ég tel vera fjórar bestu röksemdafærslur Dawkins í bók hans The God Delusion sem er 400 blaðsíður. Ég tel að þrátt fyrir að sumt af gagnrýni Dawkins sé ágætt og að við því þurfi að bregðast þá standi hún ekki undir því að kristindómurinn sé blekking eða að hinir kristnu fari villir vegar.“
Bók Alisters McGraths og konu hans er skýrt og forvitnilegt innlegg í umræðu um alvörumál. Hann var sjálfur yfirlýstur trúleysingi á yngri árum og dýpkar það að sumu leyti bókina. McGrath hélt til Oxford til háskólanáms og lærði þar stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og lífefnafræði og lauk þaðan doktorsprófi. „Ég kafaði mun dýpra í fræðin þegar ég fór til Oxford. Þá var mér ljóst að hugmyndafræði trúleysisins var ekki jafn vel grundvölluð og ég hafði talið. Eins virtist mér kristin hugmyndafræði meira aðlaðandi vitsmunalega og kröftugri en ég hafði talið. Ég snerist frá trúleysi til kristindóms á um það bil einu ári“, segir McGrath sem bætir því við að sinnaskipti sín hafi orðið fyrir rökleiðslu en ekki vegna trúarreynslu eða opinberunar.
Í laugardagsblaðinu var Morgunblaðið líkara sjálfu sér. Þann dag birti það tvo leiðara. Sá fyrri var af þeirri gerð sem blaðið birtir árlega. Þar var þess krafist að sýnt yrði aðhald í opinberum rekstri og strangt þak á útgjöldin. Hinn var eins og Morgunblaðið birtir þrjúhundruð sextíu og fjóra daga ársins og þar var þess krafist að þegar yrði gengið að kjarakröfum ljósmæðra.
V ísindamenn munu í dag setja í gang hraðal mikinn, tugkílómetra langan og skjóta þar einhverjum ögnum á ógurlegum hraða. Er það gert í þeim brýna tilgangi að líkja eftir aðstæðum sem kynnu að hafa orðið örskömmu eftir svokallaðan Miklahvell. Í sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá því að ýmsir teldu þessa tilraun geta skapað svarthol sem ylli heimsendi. En sem betur fer var talað við íslenskan vísindamann sem var spenntur yfir tilrauninni og sagði hann að „flestir eðlisfræðingar“ teldu að ekki yrði heimsendir vegna hennar.
Jæja, þá er ekki eftir neinu að bíða, úr því meirihlutinn telur þetta í lagi. Og þetta klúðrast hvort eð er ekki verr en svo að það verður heimsendir.
En þessi hraðall, eða hvað þetta er sem búið er að grafa í risastóran hring undir Genf. Fyrst þarna liggur ógurlegur hringur, og einhverjir telja að verði heimsslit ef allt fer norður og niður, blasir þá ekki við að kalla hann Miðgarðsorm?