Helgarsprokið 17. ágúst 2008

230. tbl. 12. árg.

Í Þorlákshöfn og nágrenni búa tæplega tvöþúsund manns. Þar var á dögunum haldið svokallað unglingalandsmót þar sem unglingar kepptu í ýmsum íþróttum. Eins og Vefþjóðviljinn hefur ítrekað varað við, þá notar íþróttaforystan þessi landsmót sem agn til að lokka ótrúlegar fjárhæðir út úr varnarlitlum skattgreiðendum um landið þvert og endilangt. Landsmótunum er dreift og sveitarstjórnarmönnum er sagt að nú þurfi þeir að hefja gríðarlega uppbyggingu íþróttamannvirkja til að „standast kröfur landsmótsins“. Hvaða sveitarstjórnarmaður vill stýra sveitarfélagi sem ekki stenst „kröfur landsmóts“?

Útsvarsgreiðendur í Þorlákshöfn fengu að opna budduna. Í vikunni fyrir landsmótið voru tekin í notkun íþróttamannvirki sem kostuðu einn milljarð króna í byggingu. Auðvitað er ekki svo, að landsmótsnefndin taki mannvirkin með sér að mótinu loknu, en þarna hefur íþróttaforystunni tekist að fá eitt sveitarfélagið enn til þess að dæla peningum íbúanna í þessi áhugamál sumra. Þannig er farið hringinn kringum landið og alltaf finnst einhvers staðar sveitarstjórn sem ekki stenst mátið. Á þessu landsmóti tilkynnti forystan að hún hefði ákveðið að næsta landsmót færi fram á Hólmavík svo nú er röðin komin að Strandamönnum að borga. Eða vilja þeir kannski ekki standast kröfur landsmótsins?

„Varla þarf að taka fram að nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í bæjarstjórn „Sveitarfélagsins Ölfuss“. Ekki hefur hann séð sér fært að færa útsvarið niður úr hámarkinu enn sem komið er. Sama má segja um svo ótalmörg önnur sveitarfélög þar sem flokkurinn er við völd. Sjálfstæðisflokkurinn myndar í vikunni nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og verður forvitnilegt að sjá hvort hann verður jafn sáttur við hámarksútsvarið og síðustu tveir meirihlutar flokksins hafa verið.“

Varla þarf að taka fram að útsvar í Þorlákshöfn er í lögbundnu hámarki. 13,03 % af mánaðarlaunum hvers manns í sveitarfélaginu renna til bráðnauðsynlegra verkefna sveitarfélagsins. Íþróttamannvirki fyrir milljarð eru dæmi um þær nauðsynjar sem kalla á að Ölfysingar greiði hámarksútsvar í hverjum mánuði. Engum fréttamanni dettur nokkurn tíma í hug að spyrja íþróttaforystuna hvort henni þyki bara sjálfsagt að taka við slíkum framlögum af skattpíndu fólki, sem margt á eflaust fullt í fangi með að láta enda ná saman. Engum dettur í hug að spyrja sveitarstjórnarmenn í Ölfushreppi hvort þeim hafi aldrei dottið í hug að lækka útsvör bæjarbúa. Nei, það er bara mætt og teknar myndir þegar hlaupabraut er „vígð“.

Það var að vísu talað við forsvarsmann mótsins í útvarpi fyrir mótið. Hann réð sér auðvitað ekki fyrir kæti yfir hinni nýju aðstöðu. Frjálsíþróttavöllurinn væri eins og best væri á kosið og sundlaugin hefði verið tekin í gegn. Fréttamaður spurði hvort þetta hefði ekki verið dýrt í framkvæmd. Jú milljarður sagði forsvarsmaðurinn. En hvað kostar svo inn á mótið, var spurt í framhaldinu. Nú það er ókeypis sagði forsvarsmaðurinn.

Raunar má ekki tala um Ölfushrepp lengur. Fyrir nokkrum árum ákvað hreppsnefndin að breyta um nafn á sveitarfélaginu. Nú heitir það „Sveitarfélagið Ölfus“ en ekki Ölfushreppur, og sýnir að þar búa mikilmenni.

Varla þarf að taka fram að nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í bæjarstjórn „Sveitarfélagsins Ölfuss“. Ekki hefur hann séð sér fært að færa útsvarið niður úr hámarkinu enn sem komið er. Sama má segja um svo ótalmörg önnur sveitarfélög þar sem flokkurinn er við völd. Sjálfstæðisflokkurinn myndar í vikunni nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og verður forvitnilegt að sjá hvort hann verður jafn sáttur við hámarksútsvarið og síðustu tveir meirihlutar flokksins hafa verið. Þar á bæ hafa menn ekki sagt orð um útsvar síðustu árin, en talsvert um reiðhjól.

Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn í sveitarstjórnum að slaka á útsvarsklónni? Meðal sveitarfélaga með hámarksútsvar má nefna Reykjavík, Kópavog, Akranes, Grundarfjörð, Ísafjörð, Akureyri, Vestmannaeyjar, og Rangárþing eystra. Í öllum þessum sveitarfélögum er Sjálfstæðisflokkurinn við stjórnvölinn, ýmist einn eða með öðrum flokkum eða framboðum. Hversu lengi ætla sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins að láta sér sæma að innheimta hámarksútsvar af borgurunum?

En rétt er að sjálfsögðu að geta enn þeirra sem vel standa sig. Ásahreppur, Skorradalshreppur og Helgafellssveit innheimta aðeins lágmarksútsvar og eiga forsvarsmenn þessara sveitarfélaga hrós skilið. Ýmis önnur standa sig einnig sæmilega og má hér enn minna á að Seltjarnarnes hefur tvívegis á síðustu fjórum árum lækkað útsvarsprósentuna og er hún nú 12,1 %. Er vonandi að Seltirningar haldi áfram á þeirri braut og aðrir fylgi fordæmi þeirra.