Föstudagur 15. ágúst 2008

228. tbl. 12. árg.

Þ egar Ólafur F. Magnússon, þáverandi forseti borgarstjórnar, sleit samstarfi við vinstri flokkana í Reykjavík síðasta vetur og tók upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn varð Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Degi B. Eggertssyni tíðrætt um „klækjastjórnmál“ sjálfstæðismanna.

Í gær bauð Dagur B. Eggertsson Ólafi að slíta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hleypa varamanni sínum, Margréti Sverrisdóttur, að sem borgarfulltrúa svo mynda mætti nýjan vinstri meirihluta, svonefndan Tjarnarkvartett. Ólafur F. Magnússon þekktist þetta boð. Það hafa Árni Þór Sigurðsson, Þorleifur Gunnlaugsson og Sóley Tómasdóttir staðfest.

Það eina sem kom í veg fyrir að Dagur B. Eggertsson gerði það sama og hann kallaði „klækjastjórnmál“ fyrir aðeins hálfu ári var að Óskar Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins vildi ekki taka þátt í slíkum „klækjastjórnmálum“ með Degi heldur ganga til samstarfs við sjálfstæðismenn.