Fimmtudagur 7. ágúst 2008

220. tbl. 12. árg.

Í leiðara Morgunblaðsins í gær var John McCain forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum gagnrýndur fyrir þá stefnu að vilja auðvelda leit og vinnslu olíu í og við Bandaríkin. Jafnframt var honum og Barak Obama mótframbjóðanda hans hrósað fyrir að vilja veita ákveðnum nýjum orkugjöfum skattaafslátt og aðra ríkisstyrki.

Sjálfsagt munu koma fram lausnir í orkumálum sem keppt geta við olíuna. Það vona að minnsta kosti flestir. En er það líklegt til árangurs að stjórnmálamenn séu með puttana í þróuninni? Menn hafa nú þegar séð hvílíkt glapræði það var að stjórnvöld í Bandaríkjunum ýttu undir framleiðslu etanóls úr korni til brennslu í bílvélum. Ástæðan fyrir því að etanól varð að gæluverkefni bandarískra stjórnmálamanna er að kornbændur hafa enn mikil áhrif í sumum ríkjum Bandaríkjanna.

Það gilda ekki önnur lögmál um ríkisafskipti af umhverfis- og orkumálum en öðrum málum; sterkustu hagsmunahóparnir munu hafa sín áhrif. Afskipti stjórnmálamanna af þessum málum geta því hæglega tafið þróunina í átt að orkugjöfum sem keppt geta að gagni við olíuna. Með fullri virðingu fyrir McCain og Obama eru þeir ekki líklegir til að hafa nokkrar forsendur til að meta hvaða leiðir í orkumálum eru vænlegar til árangurs.

Í leiðaranum var því einnig slengt fram að ýmislegt bendi til að „Bandaríkjamenn séu loksins farnir að líta á olíufíkn sína sem alvöruvandamál.“

Hvernig ætli þessi olíufíkn Bandaríkjamanna lýsi sér? Ætli það sé fíkn að hita heimili og fyrirtæki í vetrarkuldum eða kæla þau í kæfandi sumarhita? Fíkn að gera lesbjart á kvöldin? Er það fíkn að nota bíl til að sækja vinnu eða skóla við hæfi? Er það olíufíkn að nýta bílinn til að gera hagstæð kaup til heimilisins? Fljúga í fríið með fjölskylduna?

Olían hefur ekki aðeins létt mönnum lífið á áður óþekktan undanfarna hálfa aðra öld heldur einnig hlíft umhverfinu þótt þess sé sjaldan getið. Í olíuverðshækkunum undanfarin misseri hefur það rifjast upp fyrir mönnum hvaða orkugjafar voru nýttir fyrir daga olíuvinnslunnar. Morgunblaðið segir sjálft frá því í frétt í dag að í Bandaríkjunum hafi notkun á eldstæðum eins og kamínum aukist að undanförnu því fólk leiti nú allra leiða til að hita hús sín.