Þriðjudagur 5. ágúst 2008

218. tbl. 12. árg.

F jölmiðlamenn þylja nú upp útreikninga um laun annars fólks. Þeir, eða félagar þeirra á öðrum fjölmiðlum, hafa farið í álagningarskrár og reynt að reikna upp úr þeim hver séu líkleg laun einhvers fólks. Þetta þykir fjölmiðlamönnum sjálfsagt. Þegar þeir hafa á síðustu árum verið spurðir um þetta háttalag sitt hafa þeir farið með þulurnar um þekktar persónur, að hægt sé að nálgast gögnin, tjáningarfrelsi og í sumum tilfellum sé um opinbera starfsmenn að ræða og því eigi almenningur rétt á upplýsingunum.

Allt er þetta innihaldslaust tal og fréttamennirnir meina ekki orð af þessu.

Ein spurning: Hvers vegna byrja fréttamennirnir ekki á því að segja nákvæmlega frá því hvað þeir sjálfir hafa í laun? Þar geta þeir þó stuðst við launaseðla en ekki hraðsoðinn útreikning úr álagningarskrám. Sjálfir eru þeir miklu þekktari en flestir þeir sem fá einkamál sín lesin upp í útvarpi og sjónvarpi eða birt í blöðum. Sumir fréttamanna eru einnig opinberir starfsmenn. En nei, fréttamönnum dettur ekki í hug að segja frá eigin launum, svo þeim þykir greinilega sem launakjör geti verið einkamál, en bara launakjör fréttamanna.

Á dögunum barðist Ríkisútvarpið um á hæli og hnakka. Þá hafði annar fjölmiðill óskað eftir upplýsingum um launakjör dagskrárstjóra Ríkissjónvarpsins. Það mátti Ríkisútvarpið ekki heyra á minnst og var þó um að ræða opinberan starfsmann og þjóðþekktan. Þá var sko barist frammi fyrir úrskurðarnefndum og þess krafist að starfskjörin væru trúnaðarmál. Þá voru ekki brúnaþungir þáttastjórnendur að rannsaka málið með vísan í upplýsingareglur, eftirlit eða opinberar stofnanir. Þá mátti sko ekki sitja og þylja upp laun, eins og þykir sjálfsagt ef utanhússfólk á í hlut. Enda meina fréttamenn ekkert með fagurgalanum um “hlutverk fréttamanna”.

Þegar ráðinn var fréttastjóri á Ríkisútvarpið, í trássi við vilja fréttamanna, þá höfðu þeir mikinn áhuga á öllum formsatriðum við ráðninguna. Þegar skömmu síðar var ráðinn fréttastjóri sem þeir vildu fá, þá gerðu þeir ekkert með að formsatriðum hafði einmitt ekki verið fullnægt við þá ráðningu.

Á dögunum var mikið rætt um stöðuveitingar í Kópavogi og fréttamenn höfðu mikinn áhuga á auglýsingum og formreglum um ráðningar, þó reglur um auglýsingaskyldu eigi reyndar ekki við um sveitarfélög heldur aðeins hjá ríkinu. En hvenær hafa þáttastjórnendur Ríkisútvarpsins haft áhuga á því hvernig staðið er að ráðningum til dæmis þáttastjórnenda hjá Ríkisútvarpinu? Eru þau störf auglýst? Kannski koma einhvern tíma upp rannsóknarblaðamenn sem skoða slíkar ráðningar. Eða þingmenn, út af öðru eins hafa þeir nú komið með fyrirspurnir. Eða ætli þeir hinir sömu yrðu þá kannski fengnir í færri þætti.