Mánudagur 4. ágúst 2008

217. tbl. 12. árg.

Í slenskir sveitarstjórnarmenn eru orðnir miklar eyðsluklær. Þó skatttekjur sveitarfélaganna hafi vaxið verulega á undanförnum árum þá hafa skuldir þeirra aukist enn meira. Og alltaf heimta sveitarfélögin meiri skatttekjur – eða „aukna tekjustofna“ eins og það heitir.

Þó auðvitað verði að taka með í reikninginn að lögbundnum verkefnum sveitarfélaganna hafi fjölgað, þá er eyðslan í bæjarstjórnum landsins langt umfram það, enda fylgdu tekjur þeim verkefnum sem færð voru til sveitarfélaganna. Það er ístöðuleysi sveitarstjórnarmanna, sem sífellt eru að gera nýja og nýja „samninga“ við íþróttafélagið, eða byggja stórhýsi undir einhvern annan þrýstihóp eða styrkja „mannréttindastarf“ eða hvað það nú allt heitir, það stóra og smáa sem safnast saman og veldur bæði hámarksútsvörum, holræsagjöldum og fasteignagjöldum sem og, þrátt fyrir slík og fleiri fagnaðarefni, alvarlegri skuldastöðu flestra „öflugustu“ sveitarfélaga landsins.

Nú hefur formaður fjárlaganefndar alþingis lýst því yfir að hann vilji „endurskoða“ hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum, og þá auðvitað til að auka hana.

Formaður fjárlaganefndar alþingis heitir Gunnar Svavarsson. Hann er líka bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður framkvæmdaráðs bæjarins.