Laugardagur 2. ágúst 2008

215. tbl. 12. árg.

H ið opinbera hefur að undanförnu ráðlagt mönnum að aka fremur um á bílum sem ganga fyrir Dieselolíu en bensíni. Þetta heillaráð mun veitt til að hlífa takmörkuðum auðlindum Jarðar. Engu að síður eru Dieselbílar dýrari en bensínbílar sem þýðir væntanlega að meira af takmörkuðum auðlindum þarf til framleiðslu þeirra eða að meiri skortur er á þeim.

Og ekki nóg með það. Hið opinbera hvetur menn þannig til að nota það eldsneyti sem meiri skortur er á. Dieselolían er nú 10% dýrari en bensínið þrátt fyrir að skattlagning hins opinbera halli örlítið á bensínið. Það er því ekki víst að allir kunni hinu opinbera þakkir fyrir þetta ráð, að aka um á dýrum bíl sem notar dýrt eldsneyti. Dieselvélarnar nýta eldsneytið vissulega betur en bensínvélarnar en Dieselbílarnir eru líka þyngri sem vegur á móti betri nýtingu.

Eins og Vefþjóðviljinn sagði frá í fyrradag hefur það víðar reynst glapræði en hér á landi að hið opinbera leggi mönnum línur í þessum efnum, bæði fyrir einstaklingana og umhverfið.