Miðvikudagur 16. júlí 2008

198. tbl. 12. árg.
Að sögn [Percy Westerlund] er auðveldara fyrir ríki að taka upp einhliða bandaríkjadal en evruna. Evran sé mikilvægt pólitískt tæki á vettvangi ESB og hún verði ekki aðskilin frá spurningunni um aðild að bandalaginu.
– Úr viðtali Morgunblaðsins 14. júlí 2008 við Percy Westerlund, sendiherra og yfirmann fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi.

Þ eir sem halda að hræða megi Íslendinga inn í Evrópusambandið vegna hins alþjóðlega óstöðugleika í efnahagsmálum og rússíbanareiðar íslensku krónunnar hafa hent mikið grín að þeim orðum Geirs H. Haarde forsætisráðherra að allt eins megi hugsa sér að taka upp dal eins og evru hér á landi. Það sé bara verið að þæfa málin eða tefja sóknina að lokatakmarkinu. Nú hefur hins vegar einn af starfsmönnum draumaríkisins bent á að það sé þægilegri kostur fyrir ríki utan ESB að taka upp dal en evruna. Sem er alveg rétt. Fyrir því er talsverð hefð, í yfir hundrað ár, að ríki utan Bandaríkjanna noti dalinn. Evruna hefur hins vegar ekkert ríki utan Evrópusambandsins tekið upp en nokkur ríki utan þess nota hana nú sem notuðu áður ítalska líru, franskan franka og þýskt mark.

Það er eiginlega alveg makalaust að samtök atvinnurekenda, samtök launafólks og stjórnmálaflokkarnir hafi ekki látið kanna þennan kost. Mörg hundruð milljónir renna úr vösum skattgreiðenda til þessara samtaka á ári hverju en þau eru gjörsamlega úti á þekju í þessu máli sem þau segja þó sjálf vera svo mikilvægt.

Hefur annars nokkur maður hér á landi heyrt fyrr um hann Percy Westerlund? Eða séð hann? Ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið verður það daglegt brauð að vitnað sé í embættismenn eins og þennan í Brussel sem engir á landinu hafa heyrt um, hvað þá valið til starfa á nokkurn hátt. Stanislaus Rasparovic yfirmaður sjávarútvegsmála hjá ESB hefur tilkynnt Íslendingum að karfaveiðar… Manuela Heins yfirmaður skattamála hjá ESB hefur tilkynnt íslenskum undirmönnum sínum í Arnarhváli að hækka skuli skatta á… Sören Jeppesen framkvæmdastjóri lýðheilsumála hjá ESB segir að fæðuval Íslendinga standist engan veginn samevrópskar reglur og