Þriðjudagur 15. júlí 2008

197. tbl. 12. árg.
gamli vegurinn er málið
sá nýi er eins og hægfarin
leið til helvítis

styttir leiðina frá Akureyri til Vopnafjarðar
það var áreiðanlega aðkallandi

en gamli vegurinn
liggur um örnefni sem æsa
upp ímyndunaraflið
Geitasand
kolsvart flæmi til beggja handa
lyngi vaxna bakka Lónakíls
og Heljardal
þar sem maður lá eitt sinn
grafinn í fönn
í sólarhring
með sjö kindum

Herðubreið gægist milli fjalla
vond drottning að líta í svikulan spegil.

– Ingunn Snædal, Möðrudalur.

Ú t var að koma ljóðabókin „Í fjarveru trjáa“ þar sem Ingunn Snædal fer um landið og hugleiðir það sem fyrir augu ber. Það er full ástæða til að mæla með þessari bók fyrir alla þá sem kunna að meta Ísland og skemmtilega hugsun á íslensku. Og það má einnig taka ýmis orð Ingunnar herskildi til nota í stjórnmálagaspri hversdagsins. Eins og þessi um gamla veginn, sem hefur töfra sem þann nýja skortir, þó að það hafi verið „áreiðanlega aðkallandi“ að stytta leiðina milli Akureyrar og Vopnafjarðar – og fer ekki hjá því að lesandann gruni að henni þyki nauðsynin ekki hafa verið brýn.

Og nú frá þessari ljómandi ljóðabók að vegastyttingum nútímans. Á undanförnum árum hafa stjórnmálamenn gagnrýnislítið komist upp með að eyða gríðarlegu skattfé til vegaframkvæmda, sem afsakaðar hafa verið með því að stytta þurfi leið milli einhverra staða. Iðulega hefur fólk setið þegjandi undir alls kyns fjarstæðum sem bornar hafa verið fram í staðinn fyrir haldbærar röksemdir fyrir slíkum framkvæmdum. Á dögunum var til dæmis veri ð að tilkynna um útboð vegna „suðurstrandarvegar“, sem verður rándýr framkvæmd til að búa til aðgengilegan heilsársveg meðfram ströndinni frá Grindavík til Þorlákshafnar. Það var svo einstaklega aðkallandi að stytta leiðina milli Grindavíkur og Þorlákshafnar.

Þessi fráleita en rándýra framkvæmd var, eins og fleiri slíkar, rökstudd með kjördæmabreytingunni. Nú eru Grindavík og Þorlákshöfn í sama kjördæmi og þá verður auðvitað að vera fljótlegt að aka þar á milli, segja kjördæmapotarar án þess að nokkur spyrji nokkurs. En af hverju þarf það að vera? Höfn í Hornafirði og Keflavík eru í þessu sama kjördæmi og ekki dettur nokkrum manni í hug að það þurfi að vera stutt að aka milli þessara staða. Akranes og Ísafjörður eru í sama kjördæmi, Hellissandur og Sauðárkrókur eru það líka, og engum manni dettur í hug að það sé einhver nauðsyn að menn komist þar á milli á andartaki. Hvaða nauðsyn er eiginlega á því að eyða stórfé – og það á þeim tíma sem ráðamenn segja borgurunum að spara nú allt við sig – til að leggja glæsiveg milli Þorlákshafnar og Grindavíkur? Eru margir sem eiga brýn erindi þar á milli?

Fyrir nú utan hvað menn eyðileggja fallegan veg sem nú liggur þar sem hraðbrautin Grindavík-Þorlákshöfn á að koma.
Sama máli gildir um hin vitfirringslegu Héðinsfjarðargöng. Það er einfaldlega engin nauðsyn að menn komist allan ársins hring á örskotsstund frá Siglufirði til Ólafsfjarðar. Þau göng voru líka „réttlætt“ með kjördæmabreytingu. Getur einhver maður útskýrt hvers vegna kjósandi á Siglufirði verður, vegna kjördæmabreytingarinnar, að geta komist á augabragði á Ólafsfjörð?

Og þá aftur að ljóðabók Ingunnar. Svona hljómar Úthlíð:

Björn bóndi kom til dyra
hress á nærbolnum
lét okkur hafa lykla
og leiðbeiningar
sem maður heyrir aldrei
nema helming af
jafn óþreyjufullir og allir eru
að komast loksins í pottinn

ævinlega þarf að hringja litlu síðar
hvaða krani sagðiru aftur að það væri?