Í síðustu viku varð það forsíðufréttaefni að minnsta kosti þriggja dagblaða sama daginn að fjórir framkvæmdastjórar hjá REI hefðu yfirgefið fyrirtækið að eigin frumkvæði. Þó var alveg eiginlega óþarft að taka það fram að þarna væri um framkvæmdastjóra að ræða því vart var nokkur maður ráðinn til fyrirtækisins í árdaga þess án þess að hljóta yfirmannstitil. Í þeim fjöldauppsögnum sem nú eiga sér stað vítt og breitt um landið hefði heldur vart mátt vænta slíkra forsíðufrétta um afdrif fjögurra manna.
Þegar Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi vinstri grænna komst í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur um hundrað daga skeið í vetur taldi hún mest um vert að „róa umræðuna“ um REI og stofnaði vinnuhóp til að svæfa málið. Hún var orðin sárþreytt á að æsa sjálfa sig upp vegna málsins.
En þegar þessir fjórir framkvæmdastjórar hjá REI hættu að eigin ósk í síðustu viku mætti hún að sjálfsögðu sótvond í sjónvarpið til að skýra fyrir borgarbúum að nú væri mikilvægt að æsa sig á ný.