Í dag er vinnu Íslendinga fyrir sköttum og gjöldum til hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, lokið í ár. Fram á þennan dag má segja að menn hafi stritað fyrir opinberum gjöldum og geti loks farið að vinna fyrir sjálfa sig.
Á myndinni sést hversu marga daga Íslendingar vinna fyrir sköttum og gjöldum til hins opinbera. Síðustu þrjú ár eru þau ár sem hið opinbera hefur tekið stærstan hluta landsframleiðslunnar til sín. Á þennan mælikvarða hafa landsmenn aldrei verið jafn stóran hluta ársins að vinna fyrir hið opinbera. Ef miðað er við tölur fyrir árið 2007 eru Íslendingar 176 daga að vinna fyrir hið opinbera en 189 daga fyrir sjálfa sig.
Árið 2007 voru tekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu rúm 48%. Hið opinbera er bæði ríki og sveitarfélög. Í dag er þetta hlutfall af árinu liðið (ekki er tekið tillit til hlaupársins). Hlutfallið hefur hækkað mjög mikið á síðustu 20 árum en árið 1987 var það innan við 36%%. Næstu ár þar á eftir hækkuðu bæði tekjur og gjöld mjög verulega en frá 1991 til 1998 var hlutfallið nokkuð stöðugt. Ef miðað væri við útgjöld hins opinbera, í stað tekna, mætti segja að landsmenn væru í vinnu fyrir hið opinbera til 8. júní.
Með sama framhaldi verður þess skammt að bíða að hið opinbera hrifsi helming landsframleiðslunnar til sín.
Á síðasta ári voru menn fimm dögum skemur að vinna fyrir hið opinbera og þá sendi Andríki frá sér Sneið til stjórnvalda. Þar sagði meðal annars um þennan mælikvarða á umsvif ríkis og sveitarfélaga:
Þessir mælikvarðar á umsvif hins opinbera eru auðvitað ekki fullkomnir. Auk þess að taka til sín verulegan hluta landsframleiðslunnar og eyða honum leggja ríki og sveitarfélög alls kyns höft og íþyngjandi reglur á landsmenn. Höft í landbúnaði, bæði í framleiðslu og verslun með búvörur, eru Íslendingum til að mynda dýr. Flóknar reglur og eftirlit auka kostnað í atvinnulífinu. Launþegum og atvinnurekendum ber lagaskylda til að greiða ákveðin iðgjöld til lífeyrissjóða í sameign sem ekki er ósanngjarnt að líta á sem opinber afskipti. Í heilbrigðis- og menntamálum er ríkið með umsvifamikinn rekstur sem hamlar því að neytendur fái notið einkaframtaks og samkeppni á þessum sviðum. Það má því leiða að því sterk rök að tekjur og gjöld hins opinbera segi ekki alla söguna um umsvif ríkis og sveitarfélaga og kostnaðinn sem þessir opinberu aðilar leggja á landsmenn. |