Miðvikudagur 4. júní 2008

156. tbl. 12. árg.

H ún var lýsandi, ályktunin sem starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur voru að senda frá sér. Það er þakkarvert af þeim að gefa svona skýrt og skiljanlegt dæmi um það hversu hætt einstökum „fagaðilum“ er við að misskilja stöðu sína – en sú tilhneiging hefur aukist með ógnarhraða undanfarin misseri. Og þar verður að spyrna við fótum.

Starfsmenn Orkuveitunnar sjá ekkert að ályktun sinni, og segir það meira en mörg orð. Þeir „biðjast undan pólitískum afskiptum“ af þessu langstærsta fyrirtæki Reykjavíkurborgar, og þýðir það á mannamáli að starfsmennirnir vilja ráða öllu sjálfir, rétt eins og þeir einir ættu fyrirtækið.

Hverjir eiga Orkuveitu Reykjavíkur? Það eru, eins og allir nema starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur vita, aðallega Reykjavíkurborg en einnig að örlitlum hluta nokkur önnur sveitarfélög. Fulltrúar eigenda, lýðræðislega kjörnir, eru sveitarstjórnarmenn; borgar- og bæjarfulltrúar. Það eru þeir og engir aðrir sem eru fulltrúar eigenda Orkuveitunnar – en slíkur er þótti starfsmannanna að þeir hika ekki við að senda frá sér ályktun þar sem þeir „biðjast undan“ afskiptum fulltrúa eigenda fyrirtækisins af því.

Þetta er lýsandi dæmi um þróun sem er að verða á ótal sviðum. Þeir sem starfa í „geiranum“, vilja sjálfir ráða þar öllu. Það eitt sé „faglegt“, en allt sem stjórnmálamenn geri þar sé „ófaglegt“ og spillt. Ef lýðræðislega kjörinn stjórnmálamaður og „fagaðila“ greinir á, þá er blindan orðin slík að „fagmennirnir“ halda í raun að það sé þeirra vilji sem eigi að ráða. Jafnt og þétt reyna þeir að sölsa undir sig öll völd í sínum málaflokki, völd sem eiga heima hjá borgurunum, en þeirra einu fulltrúar eru lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn.

Það er ekkert víst að ákvarðanir stjórnmálamanna séu betri eða verri en ákvarðanir „fagmanna“. En það eru stjórnmálamennirnir sem eru valdir af borgurunum og bera ábyrgð gagnvart þeim, og þar á valdið að vera en ekki hjá ókosnum „fagmönnum“, sem aldrei þurfa að standa neinum skil á neinu.

Hver hefur „faglegt eftirlit“ með „fagmönnum“? Hver gætir þess að í hverri grein verði ekki til ráðandi klíka sem deili og drottni í nafni „fagmennsku“? Hvaða aðhald fá „fagmennirnir“? Kemur það frá fjölmiðum eða kannski stjórnarandstöðunni? Hver segir að einu spilltu menn landsins fari í stjórnmál? Hvenær var starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur gefið fyrirtækið? Á sama tíma og Páli Magnússyni var afhent Ríkisútvarpið?