Þ ó heimurinn sé ágætur staður þá er víða kúgun og manngerðar hörmungar. Það yrði langur skelfingarlisti ef það yrði allt talið upp á einum stað. Í Darfur í Súdan hafa hundruð þúsunda manna hreinlega verið leidd til slátrunar og stjórnvöld þar látið sér vel líka, en svokallað alþjóðasamfélag gerir ekkert. Víða í arabalöndum myrða feður og bræður dætur og systur ef þær sjást með röngum manni, og yfirvöld þar gera ekkert, enda upptekin við að höggva hendur af búðarþjófum. Í Kína býr einn og hálfur milljarður manna við kommúnistastjórn og stjórnmálafrelsi er lítið sem ekkert. Eitt hryllingslandið er Kúba, þar sem heilli þjóð hefur í áratugi verið haldið í kommúnískum fangabúðum, ferðafrelsi er ekkert en andófsmenn eru miskunnarlaust teknir af lífi eða dæmdir í áratuga fangelsi.
En nú hefur birst ljós í myrkrinu. Íslenskum alþingismönnum er nú nóg nóg boðið og komu þeir saman nýlega og sendu frá sér harðorða ályktun. Höfðu þeir líka frétt af slíkum hryllingi að allt annað myndi blikna í samanburði, ef einhver yrði svo dómgreindarlaus að reyna að jafna nokkru við.
Það er skelfingarástandið á Kúbu. Ekki reyndar á þeim hluta þar kommúnistastjórn Fidels Kastrós hefur síðustu fimmtíu árin kúgað þegna sína. Nei, það hefur nefnilega komið á daginn að mestu illmenni heims, sjálf Bandaríkin, reka fangelsi þar í grennd og þar eru vistaðir menn sem taldir eru meðlimir hryðjuverkasamtakanna Al Qaeda. Og þá fengu íslenskir alþingismenn málið. Einum rómi – því þingmenn þessi misserin eru eins og þeir eru – samþykktu þeir harðorða ályktun gegn þessu bandaríska fangelsi, sem er eitt um þann heiður meðal umdeildra verka í heiminum að geta þó stuðst við einróma ályktun íslenskra alþingismanna. Jafnvel fjöldamorðin í Darfur, þar sem hundruð þúsunda hafa verið hoggin og skotin, hafa ekki enn náð slíkum frama.
En það er ekkert Bandaríkjahatur í Vestur-Evrópu, því má ekki gleyma. Þetta er allt hlutlægt mat á málavöxtum og ekkert annað.
H ann var ánægjulegur, úrskurður dómsmálaráðuneytisins á dögunum varðandi skemmtistaðinn Goldfinger í Kópavogi. Ráðuneytið taldi umsögn lögreglustjóra um skemmtistaðinn byggða á fyrirframgefinni skoðun en ekki rökum og staðreyndum, og felldi úr gildi tiltekna ákvörðun sýslumanns, sem hann hafði stutt við þessa umsögn.
Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki lesið umsögnina, en samt treystir hann sér til að fagna úrskurði ráðuneytisins. Er blaðið þá svona ákaft í að reknir séu nektardansstaðir? Nei því fer fjarri. En úrskurðurinn er einfaldlega vísbending um að ráðuneytið hafi í málinu farið eftir því sem það taldi vera réttan lagaskilning en ekki því hvað kynni að vera til vinsælda fallið. Og í nektarbransanum hefur fólk ekki alltaf átt því láni að fagna. Skemmst er að minnast frægs einkadansdóms Hæstaréttar, en hann hefur verið harðlega gagnrýndur af lögfræðingum á síðustu árum, með þeim rökum að þar hafi Hæstiréttur vikið frá eigin fordæmum án rökstuðnings. Hefur til dæmis einn virtasti lögfræðingur landsins, dr. Páll Hreinsson, bent á að í þessum dómi beitti Hæstiréttur allt öðrum sjónarmiðum en hann hafði fram að því gert.
Niðurstaða í málum á ekki að ráðast af því hverjir eru aðilar þeirra. Þess vegna er gott að jafnvel óvinsælir atvinnurekendur eins og þeir sem reka nektardansstað geti unnið svolítinn sigur af og til.