Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að „sviðsstjórar“ hjá Reykjavíkurborg eru með 850 þúsund krónur í mánaðarlaun og við það bætist „kjaranefndareining“ upp á 117 þúsund krónur. Starfið gefur því af sér tæpa milljón á mánuði. Sviðsstjórarnir eru alls átta.
Þetta eru mjög fín laun með fullri virðingu fyrir því fólki sem gegnir þessum störfum.
Um allt land eru menn hins vegar að missa vinnuna sína um þessar mundir, verða af yfirvinnu og missa alls kyns bónusa og kjarabætur. Hvernig ætli sviðsstjórar og aðrir starfsmenn hjá borg og ríki finni fyrir þeim þrengingum sem nú eru í efnahagslífinu?
Sannast sagna munu þeir ekki verða mikið varir við þetta ástand. Atvinnu- og launaöryggið verður ekki mikið meira á jarðarkringlunni. Ábyrgð í starfi verður heldur aldrei jafn mikil og þegar menn reka einkafyrirtæki. Það þarf auðvitað að taka mið af þessu þegar laun opinberra starfsmanna eru borin saman við laun manna á almennum vinnumarkaði.