G eir H. Haarde forsætisráðherra var ekki fyrr búinn að biðja landsmenn að gæta hófs og aðhalds í fjármálum en borgarfulltrúar hans eigin flokks og allra annarra heimta dýrustu mögulegu útfærslu Sundabrautar. Morgunblaðið segir frá fjölmennum fundi í ráðhúsinu í gær þar sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður borgarráðs ítrekaði að full samstaða væri um það meðal borgarfulltrúa að að brautin fari í göng. Göngin eru 9 þúsund milljónum króna eða 40% dýrari en sú leið sem vegagerð ríkisins mælir með. Um kostnað við göngin ríkir einnig meiri óvissa en um aðrar leiðir og allir vita hvað það þýðir.
Fulltrúi vegagerðarinnar á fundinum í gær upplýsti einnig að ódýrari leiðin myndi leiða til minni heildaraksturs á höfuðborgarsvæðinu en hin dýra um göngin. Og þar með minni útblásturs. Er það ekki eitt af „grænu skrefum“ borgarinnar að draga úr umferð sem kostur er? Eða má kannski ekki draga úr umferð með hagkvæmum og skynsamlegum leiðum heldur bara með boðum, höftum og fíflagangi?
Talsmaður vegagerðarinnar benti einnig á að ódýra leiðin gæfi meiri möguleika á hjóla- og gönguleiðum en dýri moldvörpuvegurinn. Hvað hafa borgarfulltrúar látið taka við sig mörg viðtölin um mikilvægi hjólastíga?