J ón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifar grein í Viðskiptablaðið í dag, og þar sem svo sjaldgæft er að hægt sé að fagna nokkru úr þeirri átt er rétt að nota tækifærið nú. Grein framkvæmdastjórans nefnist „Skattheimta til óþurftar“ og í inngangi hennar segir hann meðal annars:
Mikilvægt er að búa svo um hnúta að skattkerfið sé einfalt og skilvirkt, skattstofnar skýrir og án undantekninga, skatthlutföll sem lægst, neyslustýring og forræðishyggja ráði ekki för og síðast en ekki síst að það dragi ekki úr þrótti og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Hér er enn verk að vinna. |
Já, hér er enn verk að vinna. Og Vefþjóðviljinn vill leggja sitt af mörkum með því að benda á tilvalinn skatt til að leggja af, skatt sem dregur úr þrótti og samkeppnishæfni þeirra sem verða að borga hann og er þar að auki skýrt dæmi um forræðishyggju og í vissum skilningi neyslustýringu – svo ekki þarf að efast um stuðning framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins við afnám hans.
Það er orðið mjög áríðandi að afnema iðnaðarmálagjaldið.
Svo furðulega vill til, að með sérstökum lögum er lagt gjald á allan iðnað í landinu og er skattstofninn ekki tekjur af iðnaðinum heldur velta hans. Þetta gjald hefur á liðnum árum numið hundruðum milljóna á hverju ári; fé sem tekið er með nauðung af öllum þeim sem stunda iðnað á Íslandi og hefðu vafalaust getað nýtt peningana sína öðruvísi.
Og hvað ætli sé gert við peningana? Því er fljótsvarað. Þeir renna til Samtaka iðnaðarins, félagsskapar sem þannig hefur fengið meira en milljarð króna með nauðungargjöldum af fyrirtækjum í landinu. Þessa peninga notar forysta samtakanna í áralanga baráttu fyrir pólitísku hugðarefni sínu. Og svo kemur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, maður sem þiggur laun sem tekin eru með nauðung af „aðildarfélögunum“ og skrifar greinar gegn skattheimtu og forræðishyggju.
Maðurinn, sem sérstaklega tekur fram að forræðishyggja megi ekki ráða för í skattkerfinu, er hann ekki örugglega hlynntur því að hætt verði að þvinga iðnfyrirtækin í landinu til að greiða til hagsmunasamtaka sem þau hafa kannski engan áhuga á að tilheyra?
Það er kannski einhver fjölmiðill eftir á Íslandi sem er tilbúinn að spyrja að því?