Á hugamönnum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið hefur vaxið nokkuð ásmegin að undanförnu. Helsta skýringin á því er án efa þeir tímabundnu efnahagsörðugleikar, sem blasa við þjóðinni um þessar mundir. Sveiflur í gengi krónunnar, hátt vaxtastig og fleiri slíkir þættir valda því að ýmsir hafa tekið til við að gæla við aðild að ESB og myntbandalagi Evrópu, þar á meðal menn sem ekki hafa fram til þessa verið hópi hinna hefðbundnu ESB-trúboða á skrifstofu Samtaka iðnaðarins, í Samfylkingunni eða stjórnmálafræðideildum háskólanna.
Þannig hafa ESB sinnar innan Framsóknarflokksins látið meira til sín taka upp á síðkastið og hafa af fréttum að dæma jafnvel náð að rugla formann flokksins, Guðna Ágústsson, svo í ríminu, að á miðstjórnarfundi um helgina var hann farinn að ræða praktísk skref til að undirbúa aðild og nota loðið orðalag varðandi grundvallarspurninguna sjálfa, hvort Ísland eigi að stefna að aðild. Þetta er nokkuð nýmæli því fram að þessu hafa menn talið sig geta gengið að því vísu að formaðurinn hefði jafn sterka sannfæringu gegn ESB-aðild og hann er sannfærður um ágæti íslenskra landbúnaðarafurða. Orðalagið í ræðu Guðna er ekki hægt að skilja öðru vísi en svo, að hann telji sig knúinn til að halda friðinn við fámennan hóp háværra ESB-sinna innan flokksins – hina gömlu skjólstæðinga Halldórs Ásgrímssonar – en að sama skapi er hætt við að hann fjarlægist grasrótina í flokknum út um sveitir landsins, þar sem lítil samúð er með Evrópuhugmyndum skrifstofumannanna í Reykjavík. Guðni á því á hættu að standa uppi fullkomlega landlaus innan flokksins ef hann lætur teyma sig lengra í þessa átt.
„Loks þarf að taka með í myndina, að Íslendingar væru ekki bara að taka afstöðu til samninganna um Evrópusambandið eins og þeir líta út í dag, heldur þyrftu þeir líka að taka tillit til líklegrar þróunar þess í framtíðinni, en öllum er ljós sá þungi sem er í átt til aukinnar samræmingar, aukins valds stofnana sambandsins og minna svigrúms aðildarríkjanna til að ráða eigin málum. Vilji margra stærstu og áhrifamestu aðildarríkjanna í þá átt er augljós, auk þess sem skrifað er inn í grundvallarstefnu sambandsins að stefnt sé að sífellt nánara samstarfi – „ ever closer union“ – eins og þar stendur.“ |
En Guðni Ágústsson er auðvitað ekki einn um að láta rugla sig í ríminu að þessu leyti. Um þessar mundir gæla fleiri við þá hugmynd, að ekkert sé athugavert við að stíga ákveðin skref til þess að undirbúa aðild Íslands að ESB, breyta stjórnarskránni, ákveða samningsmarkmið, vinna í því að uppfylla efnahagsleg skilyrði myntsamstarfsins og fleira, til þess að eiga þess kost að gerast aðilar í framtíðinni. Málflutningur af þessu tagi gengur auðvitað út frá því að ESB-aðild sé einhvern veginn eðlilegur og sjálfsagður kostur í framtíðinni – jafnvel óhjákvæmilegur – og því sé ekkert annað að gera en að ryðja úr vegi tæknilegum, stjórnskipulegum og pólitískum hindrunum á veginum og spyrja svo að því loknu hvort stíga eigi skrefið til fulls. Þetta er auðvitað skiljanlegt viðhorf út frá sjónarmiðum þeirra, sem þegar hafa gert upp við sig að ESB-aðild sé æskileg. Þeir sjá auðvitað fyrir sér að auðveldara verði að ná markmiði sínu ef sem lengst er sneitt fram hjá grundvallarspurningunni um aðild eða ekki og sem flest álitamál sem aðildina snerta séu afgreidd sem tæknileg úrlausnarefni áður en þing og þjóð standa frammi fyrir ákvörðun í þessu sambandi.
ESB sinnar telja – sjálfsagt með réttu – að það séu meiri líkur fyrir því eins og staðan er í dag að það sé hægt að ná í gegn meirihlutafylgi fyrir loðinni, almennt orðaðri stjórnarskrárbreytingu sem heimilar framsal hluta ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana heldur en stjórnarskrárbreytingu sem beinlínis heimilar fullveldisframsal til ESB. Þeir telja – og hafa örugglega rétt fyrir sér – að það fáist meiri stuðningur bæði á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu – við að hefja beri aðildarviðræður og sjá svo til, heldur en ef spurt væri hreint út hvort Íslendingar ættu að ganga í ESB. Það er líka skiljanlegt, frá þeirra bæjardyrum séð, að mikilvægt sé að setja niður samningsmarkmið viðræðna sem fyrst og ræða sem mest um þau á tæknilegum nótum, en ýta grundvallarumræðunni sem lengst á undan sér. Það er hins vegar erfiðara að átta sig á því hvað vakir fyrir yfirlýstum andstæðingum ESB-aðildar, sem tala á sömu nótum, hvort sem þá er að finna innan Framsóknarflokks eða jafnvel Sjálfstæðisflokks. Ef þessir menn eru jafn sannfærðir og ráða má af orðum þeirra, um að Íslandi sé betur borgið utan ESB en innan, hvers vegna gefa þeir undir fótinn vangaveltum um aðgerðir, sem gera ekkert annað en að auðvelda ESB sinnunum leikinn og færa Ísland nær aðild? Eru þeir bara að senda stuðningsmönnum ESB aðildar vinsamleg skilaboð án þess að því fylgi nokkur alvara? Eru einhverjir þeirra hræddir um að virðast gamaldags og púkalegir ef þeir standa fast á skoðunum sínum? Ætla þeir kannski að taka sér sæti á girðingunni og sjá svo til hvor skoðunin nýtur meira fylgis þegar fram í sækir? Eru þessir menn jafnvel markvisst að undirbúa jarðveginn fyrir stefnubreytingu af sinni hálfu? Allar þessar spurningar eiga rétt á sér í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast að undanförnu.
Kjarni málsins er sá, að áður en þjóðin leggur upp í leiðangurinn þarf að svara því hvort Brussel sé rétti áfangastaðurinn. Það þarf að fá á hreint hvort þjóðin er tilbúin til að framselja fullveldi sitt til Evrópusambandsins, hvort Íslendingar eigi að undirgangast sameiginlega stefnu þess í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, hvort menn vilji loka okkur inni í tollabandalagi sambandsins og verða aðilar að sameiginlegri viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum, hvort Íslendingar vilji verða aðilar að sameiginlegri utanríkisstefnu, sem nær til sífellt fleiri sviða, og auðvitað hvort efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið innan Evrusvæðisins eða með sjálfstæðri peningamálastefnu þegar til lengri tíma er litið, óháð þeirri niðursveiflu sem við erum í þessa mánuðina. Loks þarf að taka með í myndina, að Íslendingar væru ekki bara að taka afstöðu til samninganna um Evrópusambandið eins og þeir líta út í dag, heldur þyrftu þeir líka að taka tillit til líklegrar þróunar þess í framtíðinni, en öllum er ljós sá þungi sem er í átt til aukinnar samræmingar, aukins valds stofnana sambandsins og minna svigrúms aðildarríkjanna til að ráða eigin málum. Vilji margra stærstu og áhrifamestu aðildarríkjanna í þá átt er augljós, auk þess sem skrifað er inn í grundvallarstefnu sambandsins að stefnt sé að sífellt nánara samstarfi – „ ever closer union“ – eins og þar stendur.
Þetta eru kostirnir sem Íslendingar standa frammi fyrir og taka þarf afstöðu til áður en lengra er haldið. Hvorki stjórnmálamenn, hagsmunasamtök né aðrir geta vikið sér undan því að svara þessum spurningum með vísan til einhverra tæknilegra úrlausnarefna varðandi aðdraganda viðræðna eða einstök skref í ferlinu. Annað hvort vilja menn aðild eða ekki, og ef svarið er neikvætt, þá eiga menn ekki að láta teyma sig lengra í áttina að Brussel.