Laugardagur 3. maí 2008

124. tbl. 12. árg.

V efþjóðviljinn hefur af og til haft af því ánægju að vitna til skrifa hins nýkjörna borgarstjóra í London, Boris Johnson, en eftir hann liggja nokkrar bækur. Johnson er einn af fáum áhugaverðum stjórnmálamönnum í Evrópu um þessar mundir. En úr því hann er að verða pólitíkus með völd og áhrif þá er ekki seinna vænna en að finna eitthvað á hann.

Það er til marks um hvað umhverfishyggjan hefur náð að skjóta föstum rótum meðal stjórnmálamanna að jafnvel þessi ágæti frambjóðandi hafði á stefnuskrá sinni að auka endurvinnslu í London því borgarbúar væru alltof latir við að flokka og skila.

Endurvinnsla er án efa það fyrirbæri úr umhverfishyggju nútímans sem fæstir dirfast að spyrja hvort eigi alltaf rétt á sér. Jafnvel leikskólabörnum er innrætt þetta skilyrðislausa sorpföndur. Líklega á orðið sjálft mikinn þátt í því að enginn andmælir þegar það er nefnt. Hver gæti verið á móti því að nota hluti aftur?

Endurvinnsla er hins vegar ekki frábrugðin öðrum iðnaði eða framleiðslu nema að litlu leyti. Hún krefst mannafla, hráefna, orku og flutninga. Hún gengur með öðrum orðum á takmarkaðar auðlindir eins og annar iðnaður. Verð er eini mælikvarðinn sem menn hafa á það hversu takmarkaðar auðlindir eru. Ef dýrara er að endurvinna hlut en framleiða nýjan er það vegna þess að endurvinnslan gengur nær takmörkuðum auðlindum.

Auðvitað er mögulegt að dæmið sé skekkt með því að hið opinbera leggi til land undir urðun sem ekki er greitt fyrir eða niðurgreiði sorphirðu. Enginn mælir því bót. Það ætti heldur enginn að mæla því bót að skattfé sé nýtt til að niðurgreiða óhagkvæma endurvinnslu. Jafnvel ekki Boris Johnson.