Miðvikudagur 9. apríl 2008

100. tbl. 12. árg.

L aunamunur er ekkert grín í nútímasamfélagi. Hann er til að mynda notaður sem réttlæting fyrir umfangsmiklum jafnréttisiðnaði hins opinbera; jafnréttisráðum og -nefndum, jafnréttisstofum, jafnréttisfulltrúum á hverjum kóntór, klögunefndum jafnréttismála og þar fram eftir götunum. Öllum þessum störfum fylgir svo fartölva og flugmiðar á jafnréttisráðstefnur í Lundi. Allt á kostnað glaðbeittra skattgreiðenda.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við formanns félags framhaldsskólakennara sem segir farir sínar og sinna félagsmanna ekki sléttar. Þannig hátti til að orðinn sé til „launamunur“ á milli kennara og annarra „hefðbundinna viðmiðunarstétta“ innan bandalags háskólamanna. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að halda því fram að störf kennara séu léttvægari en störf annarra stétta innan bandalags háskólamanna. En ætli einhverju einkafyrirtæki dytti í hug að allir háskólamenntaðir starfsmenn þess ættu að hafa sömu laun?

Formaðurinn bætir hins vegar við áhugaverðum punkti:  „Svo er launamunurinn milli opinbera markaðarins og almenna markaðarins 20 – 30  prósent og auðvitað hljóta allir opinberir starfsmenn að horfa á það.“ Já það væri full ástæða til að horfa meira út á almenna markaðinn fyrir háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. Samtök þeirra því miður nær alltaf andvíg því að starfsemi sé boðin út eða einkavædd. Ef að það gæti fært háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum 20 – 30% kaupauka að þessi starfsemi ríkisins væri færð út á almennan markað hljóta samtök þeirra að vera að vinna gegn hagsmunum félagsmenna sinna með hinni hörðu andstöðu gegn útboðum og einkavæðingu.