Þ essi misserin er það margtuggin hversdagsspeki í Evrópu að forseti Bandaríkjanna sé fáviti. Ef marka má sérfræðingana í Evrópu þá hefur ekki annað eins flón setið í Hvíta húsinu síðan Ronald Reagan var þar – og raunar dugar sá samanburður tæplega til því hann var oftar kallaður elliær en sjaldnar fífl. George W. Bush er í Evrópu sjaldan kallaður elliær, en iðulega flón. Að öðru leyti eru það fullkomlega sambærilegir fyrirlestrar sem upplýstir vitar Evrópu hafa um þessa tvo forseta. Og sennilega mun sagan fara álíka mjúkum höndum um sleggjudómarana þegar frá líður. Reagan var stríðsóður fáviti og elliær þar að auki; Bush er víst örviti sem getur ekki komið frá sér setningu. Þá var nú eitthvað annað þegar þeir voru í Hvíta húsinu þeir Clinton og Gore, proffarnir þeir. Það eru menn sem Evrópu er að skapi.
Í einni af hinum skemmtilegu og upprifjandi bókum Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlum 2004, er kafli sem gaman að er rifja upp, bæði til áminningar um eilífa leitina að sönnunum fyrir því að George Bush sé afglapi en einnig í tilefni af því að sjálfur höfuðvísindamaður heims, Albert Gore, er nú kominn hingað til lands á seglskútu sinni til fundar við okkar bestu menn.
Í nóvember 1999 vann Andy Hiller, fréttamaður á sjónvarpsstöð í Boston, sér það til frægðar að spyrja George W. Bush, væntanlegan forsetaframbjóðanda repúblikana, einfaldrar spurningar: Hvað heita leiðtogar Indlands, Pakistans, Téténíu og Tævans? Bush gat nefnt einn.
Stærstu fjölmiðlar Bandaríkjanna slógu þessu upp sem stórfrétt, með fyrirsögnum á borð við: „Bush fellur á prófi í alþjóðamálum.“ Þeir töldu að í þessu fælist hvorki meira né minna en sönnun á því, sem þeir höfðu lengi verið sannfærðir um, að Bush væri ekki bara asnalegur í framan heldur gjörsamlega vanhæfur í utanríkismálum í þokkabót. … Óhætt er að leggja talsvert undir í veðmáli um að aldrei hafi verið sagt frá því í fjölmiðlum á Íslandi, að Al Gore, keppinautur Bush yngri í forsetakosningunum 2000, gekk árið 1993 fram hjá styttum af George Washington fyrsta forseta Bandaríkjanna og Benjamín Franklin og spurði safnstjórann: „Hvaða náungar eru þetta?”. Aðeins þrjú blöð í Bandaríkjunum sögðu frá þessu atviki enda þótt Gore hafi verið umkringdur fréttamönnum. Enda er það svo í sýndarveruleika fréttamanna, að það að þekkja ekki fyrsta forseta Bandaríkjanna er smámál í samanburði við að þekkja ekki leiðtoga Téténíu og Tævans! … Sannleikurinn er sá, að nánast enginn dirfðist að halda því opinberlega fram í Bandaríkjunum, að hann hefði þekkt alla leiðtogana fjóra sem Andy Hiller spurði Bush um. Chris Matthews, helsti stjórnmálaskýrandi sjónvarpsstöðvarinnar MSNBC (og fyrrverandi ræðuskrifari fyrir Jimmy Carter) viðurkenndi að hann hefði bara þekkt einn leiðtoganna. Sömu sögu er að segja af George Will, þekktum dálkahöfundi Washington Post og Púlitser-verðlaunahafa. Sjálfur Zbigniew Brzezinski, þjóðaröryggisráðgjafi Jimmy Carters og utanríkisráðgjafi í stjórnum þeirra Kennedys og Johnsons – eitt helsta utanríkismálagúrú Bandaríkjanna – sagði að hann hefði bara þekkt tvo leiðtoganna! Þetta var nú allur skandallinn. Aðeins tveir einstaklingar héldu því fram svo vitað sé, að þeir hefðu getað svarað öllum spurningunum fjórum rétt. Annar þeirra var… Al Gore. |
Fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar eru óþrjótandi uppspretta fróðleiks og upprifjunarefna úr furðuveröld fjölmiðlamanna. Þær fást enn í Bóksölu Andríkis, þó mjög hafi gengið á upplag sumra þeirra.