Mánudagur 10. mars 2008

70. tbl. 12. árg.

Ekki urðu nú kosningaúrslitin á Spáni alveg nógu ánægjuleg. Að vísu bætti hægriflokkurinn við sig meira fylgi en sósíalistar gerðu, en sósíalistar urðu þrátt fyrir það stærsti flokkur landsins og þar með sigurvegarar kosninganna, að svo miklu leyti sem menn geta orðið það án þess að fá hreinan meirihluta. Fyrir fjórum árum voru einnig haldnar þingkosningar á Spáni. Fyrir þær bentu allar skoðanakannanir til öruggs sigurs hægriflokksins sem meðal annars hafði beitt sér fyrir því að Spánn studdi innrás bandamanna í Írak. Svo var hið mannskæða hryðjuverk framið í Madrid, rétt fyrir kosningarnar, eins og menn muna. Andstæðingar stjórnarinnar voru margir fljótir að halda því fram að þetta hefðu menn upp úr því að styðja innrásina og nú væri eina vitið að friðmælast með því að skipta um stefnu. Ríkisstjórnin taldi hins vegar að hryðjuverkið kæmi Íraksmálinu ekkert við heldur væru baskneskir aðskilnaðarsinnar á ferð eins og löngum áður. Kosningaúrslitin urðu svo þvert á allar kannanir og stjórnarandstæðingar náðu völdum og drógu til baka stuðning Spánar við aðgerðirnar í Írak.

Mörgum þótti þá og þykir enn sem þarna hafi hryðjuverkamenn náð sínu fram. Fjölmargir kjósendur hafi vafalaust fallist á þau sjónarmið að stuðningurinn við málstað bandamanna í Írak væri of háu verði keyptur þegar hryðjuverk væru framin í Madrid. Svo hafa vafalaust verið þeir sem féllu frá stuðningi við stjórnina vegna þess að hún taldi baskana hafa verið að verki. En auðvitað er ekki gott að segja hvað ræður atkvæðum hópa fólks, en að minnsta kosti verður seint sagt að niðurstaða spænsku kosninganna hafi verið sérstök skilaboð um að Vesturlöndum yrði ekki haggað með hryðjuverkum.

En hvað sem um þetta má segja, þá er með ólíkindum að heyra kenningar spekinga á Vesturlöndum um að kosningaúrslitin nú sé einhver vísbending eða skýring á því sem gerðist fyrir fjórum árum. Það hvernig Spánverjar dagsins í dag kjósa segir nákvæmlega ekki neitt um það hvað réði atkvæði þeirra fyrir fjórum árum.