Ísrael hefur átt í vök að verjast allt frá stofnun ríkisins árið 1948. Ríkið hefur verið umkringt óvinveittum ríkjum og þjóðum svo vægt sé til orða tekið. Það hefur jafnframt búið við ákveðna innri ógn, sérstaklega eftir að það hertók Vesturbakkann og Gasa-svæðið í Sex daga stríðinu árið 1967. Eftir það hafa hryðjuverkamenn sífellt sótt í sig veðrið og orðið æ skipulagðari.
Eftir að Palestínumenn hlutu sjálfsstjórn hafa skilin milli hryðjuverkasamtaka og sjálfsstjórnaryfirvaldanna orðið æ ógreinilegri. Er nú svo komið að meginsamtökin, flokkarnir eða hvað á nú kalla það, sem deila með sér yfirstjórn sjálfstjórnarsvæðanna verða vart greind frá hryðjuverkaörmum sínum. Eftir harkaleg átök milli Fatah-hreyfingarinnar og Hamas hefur Fatah tögl og hagldir á Vesturbakkanum en Hamas á Gasa-svæðinu. Þekktasti hryðjuverkaarmur Fatah er líklega Al Aqsa sveitirnar en ekki er hægt að skilja eins vel milli stjórnmálahluta og hryðuverkahluta Hamas.
Hamas og hópar sem tilheyra Fatah hafa framið ótal hryðjuverk og eru skotmörk þeirra fyrst og fremst óbreyttir borgarar, ekki Ísraelsher eða stjórnvöld. Gera þeir sér far um að útbreiða hræðslu og óöryggi meðal Ísraela með því að reyna að myrða sem flesta í hryðjuverkum sínum. Allt of sjaldan eru Hamas og Fatah gagnrýnd þegar þau fremja hryðjuverk. Hamas og Fatah eru stjórnvöldin sem tryggja eiga öryggi borgara sinna og tryggja að ekki sé á nágranna ráðist frá eigin landssvæði. Yfirvöld sem vissulega eiga ekki að stunda hryðjuverk gagnvart nágrönnum sínum.
Ísraelsríki var hlynnt því að Palestínumenn fengju sjálfsstjórn á ákveðnum svæðum Vesturbakkans og Gasa. Ísraelsríki hefur gert sitt til að tryggja þeim sjálfsstjórn. Ísrael dró her sinn til baka frá Gasa að kröfu heimsbyggðarinna og gegn því að palestínsk yfirvöld tryggðu öryggi Ísraels fyrir sitt leyti. Ísrael hefur ekki hag af ófriði við sjálfsstjórnarsvæðin og Ísrael hefur tekið undir hugmyndir um að stofnað verði sjálfstætt ríki Palestínumanna nái það að tryggja innra öryggi og þar með frið við nágranna.
Palestínumenn hafa ekki hag af ófriði við Ísrael og sjálfsagt vill meirihluti þeirra lifa í friðsemd í sjálfstæðu ríki við hlið Ísraels. En á sjálfsstjórnarsvæðunum er ekki stabílt yfirvald. Í raun eru þau að miklu leyti stjórnlaus. Hryðjuverkahluti Fatah er allt of valdamikill og heldur ógnarvöldum með því að stunda hryðjuverk. Ekki er auðvelt fyrir friðsamari hluta samtakanna að hafa öfgamennina undir. Hamas eru pólitískur flokkur og um leið hryðjuverkasamtök. Vegna þessara innri átaka í samtökunum er friður engan veginn tryggður innan Gasa og Vesturbakkans, hvað þá gagnvart nágrönnum. Raunar er það svo, að á meðan Hamas er við völd og hryðjuverkaarmar Fatah eru svo valdamiklir þá viðgangast hryðjuverk gagnvart Ísrael með samþykki yfirvaldanna. Þau bera ábyrgð á þeim. Sérstaklega Hamas þar sem ekki verður skilið milli pólitíkur og hryðjuverkastarfsemi.
Undanfarin ár hefur ákveðin tegund hryðjuverka færst í vöxt. Flugskeytum er skotið frá palestínskum svæðum, sérstaklega frá Gasa, yfir til Ísraels og reynt er að miða á íbúðasvæði. Eftir að hafa skotið flugskeytinu hlaupa hugleysingjarnir á brott, krossa fingur og vona að þeir drepið sem flesta borgara. Ísraelsmenn skulu helst ekki fá að sofa rólegir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra Íslands sá með eigin augum afleiðingar einnar svona árásar er hún heimsótti Ísrael í fyrra. Henni er því ekki alls ókunnugt um þetta.
Margir hryðjuverkamannana eru Hamasliðar og eru að framkvæma skipanir yfirstjórnar Hamas enda gera yfirvöld á Gasa ekkert til að stöðva þessa iðju.
Ber Ísraelsríki að sitja undir þessu? Má ríkið ekki verja sig? Ef yfirvöld nágrannaríkisins gera ekkert til að stöðva hryðjuverk gegn ríki þínu og hvetja jafnvel til þeirra, máttu þá ekkert gera nema sitja með hendur í skauti og fylgjast með? Auðvitað. Það er beinlínis eitt af fáum hlutverkum sem flestir geta orðið sammála um að ríkinu beri að sinna: Að tryggja öryggi borgara sinna, bæði gegn utanaðkomandi og innri ógn. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að við tökum þátt í aðgerðunum í Afganistan og að margir hafa stutt bæði fyrri og seinni íhlutanirnar í Írak: Verja borgarana fyrir ólögmætum stjórnvöldum sem beita þegna sína hryðjuverkum, og þegar ólögmætu stjórnvöldunum er velt úr sessi, að verja lögmæt stjórnvöld fyrir ólögmætum hryðjuverkasamtökum.
Ísraelsk yfirvöld hafa séð sig nauðbeygð til að beita hernaðarvaldi gegn hryðjuverkamönnum á Vesturbakkanum og Gasa. Nú síðast í lok febrúar og í mars gegn hryðjuverkamönnum á Gasa sem skotið hafa flugskeytum á Ísrael.
Því miður er það svo að fórnarlömb allra styrjalda eru saklausir borgarar. Ísraelsmenn verða auðvitað að gæta þess að valda borgurum sem minnstum skaða og ber beinlínis skylda til þess. Ísraelski herinn verður að gæta sín betur en flestir aðrir herir enda eru palestínskir hryðjuverkamenn þekktir fyrir að skýla sér bak við óbreytta borgara. Það er hluti áróðursherbragðs þeirra. Nái Ísraelsmenn til þeirra er hugsunin sú að best sé að taka sem allra flesta óbreytta palestínska borgara með sér svo að það líti sem verst út fyrir Ísrael. Ógeðfelld og siðlaus hegðan en vel þekkt. Ísraelsmenn verða því að gæta sín betur en ella.
Frægt er dæmið um drenginn Mohammed al-Dura, sem féll í skotbardaga á Gasa á fyrstu dögum intífödunnar árið 2000, en átakanlegar sjónvarpsmyndir af dauðastríði hans í fangi föður síns vöktu gífurleg viðbrögð og fordæmingu um allan heim. Frá upphafi hafa þó verið efasemdir um hvaðan kúlurnar komu og hvort sjónvarpsmyndskeiðið hafi verið ófalsað. Í Frakklandi standa nú yfir réttarhöld þar sem deilt er um þetta og hvort sjónvarpsstöðin France 2 hafi gætt fyllstu kostgæfni í fréttaflutningi sínum. Þar voru í fyrri viku lögð fram sönnunargögn, sem virðast sýna með ótvíræðum hætti að drengurinn hafi ekki getað orðið fyrir ísraelskri skothríð. Þau tíðindi hafa litla athygli fengið og hefur aðeins verið greint frá þeim í stöku fjölmiðlum í Frakklandi og Ísrael.
Þegar mannfall óbreyttra borgara er mikið í átökum ber að gagnrýna viðkomandi her. Ísraelsher sem aðra heri. Það verður þó að hafa í huga bardagaaðferðir palestínskra hryðjuverkamanna og – samtaka eins og Hamas. Þegar þeir beita þeim aðferðum sem hér hefur verið lýst verður að gagnrýna þá um leið og hinn sækjandi her.
Sum vestræn ríki hafa verið dugleg við að gagnrýna Ísrael grimmt en látið undir hælinn leggjast að gagnrýna palestínsk yfirvöld og hryðjuverkasamtök. Hafa þau gagnrýnt Ísrael fyrir að bregðast við árásum á sig, en ekki hryðjuverkasamtökin fyrir að eiga aðild að hryðjuverkum eða reyna ekki að koma í veg hryðjuverk og fyrir að nota óbreytta borgara, ekki síst börn, sem skildi.
Því miður sýndi Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra Íslands vanstillingu og æsing er hún gagnrýndi um daginn Ísrael fyrir framgöngu sína á Gasa-svæðinu, þar sem ríkið sá sig tilneytt til að sinna því sem palestínsk yfirvöld ættu að sinna: Að koma í veg fyrir að menn gætu óhindrað skotið flugskeytum á óbreytta borgara í Ísrael.
Þegar Ísraelsher sótti inn á Gasa varð algerlega óviðunandi mannfall meðal óbreyttra borgara. Um það eru flestir sammála. Það verður ekki þolað að tugir óbreyttra borgara láti lífið á nokkrum dögum í einöngruðum hernaðaraðgerðum. Það ber að gagnrýna! En hvern ber að gagnrýna? Annan aðilann?
Sjaldan veldur einn þá tveir deila. Það á sannanlega við hér. Ef við viljum hafa áhrif á að mál þokist í friðarátt þá gerist það ekki með því að við skömmum annan aðilann en klöppum hinum á bakið. Sá sem fyrir skömmunum verður hefur þá litlu að tapa í að gæta sín ekki. Hinn aðilinn elst um leið upp við það að það er sama hvað hann gerir, hann tapar engu á því.
Nei, trúverðug utanríkisstefna felst í því að gagnrýna þá sem bera ábyrgð á mannfallinu. Í þessu tilfelli er það fyrst og fremst Hamas, sem er yfirvaldið á Gasa. Ætli menn að gagnrýna Ísrael, þá verða menn að gagnrýna Hamas um leið. Raunar ber að gagnrýna Hamas harðlega fyrir að geta ekki tryggt öryggi nágranna svæðisins, svo ekki sé talað um að gagnrýna samtökin fyrir að eiga hlutdeild í hryðjuverkum gagnvart Ísrael.
Það var undarlegt hversu hart Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra Íslands gagnrýndi Ísrael vegna aðgerðanna á Gasa en minna hefur farið fyrir gagnrýninni á hryðjuverkasamtökin Hamas sem eru yfirvaldið á Gasa. Skelfilegt var það þegar hún sendi baráttukveðjur á fund sem haldinn var á Lækjartorgi og skipulagður var af öfgamanninum Sveini Rúnari Haukssyni og félögum hans. Það er ekki gott til þess að hugsa að svo virðist sem helsti ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar í málefnum Ísraels og Palestínu skuli af því er virðist vera Sveinn Rúnar eiginmaður samfylkingarkonunnar Bjarkar Vilhelmsdóttur. Hann er þekktur fyrir allt annað en hófstillingu og hlutleysi. Enda gagnrýnir hann íslensk stjórnvöld fyrir að taka ekki upp stjórnmálasamband við yfirvöld sjálfsstjórnarsvæðanna, hryðjuverkasamtökin Hamas og Fatah.
Það er aldeilis huggulegur félagsskapurinn sem hann vill að við leggjum lag okkar við. Best væri auðvitað að utanríkisráðherra Íslands sendi ekki baráttukveðjur á fund sem slíkir menn skipuleggja og þæði ekki heldur ráð frá þeim.
Í þokkabót sendi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svo nótu til kollega síns í Ísrael, Tzipi Livni, þar sem harðlega var gagnrýnt að Matan Vilnai, aðstoðarvarnamálaráðherra Ísraels, hefði sagt að íbúar Gaza myndu kalla yfir sig „meiri helför“ ef þeir héldu áfram eldflaugaárásum á Ísrael. Hér er um móðu allra þýðingarmistaka að ræða, sem rekja má til fréttastofunnar Reuters. Vilnai notaði hebreska orðið „shoah“ í setningunni, en þegar það er notað með ákveðnum greini, „ha-shoah“ merkir það aðeins eitt: helförina. Eitt og sér þýðir það hins vegar hörmungar og vísar aldrei til helfararinnar, enda Ísraelar áfjáðir um að ekkert sé loðið í þeim efnum. Þessi þýðingarmistök komu skjótt í ljós, en virðast hafa farið fullkomlega framhjá utanríkisráðherra, sem mátti engan tíma missa til þess að láta mistökin hafa áhrif á samskipti Íslands við vinaríki án þess að velta beitt frekar fyrir sér hvort efni væru í. Eru það boðleg vinnubrögð á alþjóðavettvangi?
Daginn eftir Lækjartorgsfundinn gekk maður inn í skóla í Jerúsalem og byrjaði að skjóta í kringum sig á um 80 óvopnaða námsmenn. Myrti hann sjö manns köldu blóði og særði fjöldann allan. Og hvað skyldi nú Hamas gera, samtökin sem stjórna á Gasa-svæðinu. Jú þau byrja á því að lofa hetjudáðina, en viðurkenna síðan að þeir beri ábyrgð á henni. Viðurkenna! Það er nú eiginlega rangt til orða tekið; þeir stærðu sig af því. Stoltir talsmenn Hamas sögðu frá því að þeir hefðu staðið fyrir árásinni.
Og hvað sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra Íslands? Ekkert! Hvern gagnrýndi hún nú eftir að hafa sýnt af sér mikla röggsemi í gagnrýninni á Ísrael dagana á undan? Engan! Er hún kannski að hugsa sig um? Svona eins og varðandi Kosovo, þar sem henni tókst meira að segja að vera á eftir Færeyingum með að viðurkenna sjálfstæði Kosovo. Eða er hún upptekin við að lesa skýrslu ráðuneytisstjórans sem hún sendi til Írans af öllum ríkjum í heiminum til að efla tengslin á sviði viðskipta, orkuvirkjana og alþjóðastjórnmála! Já, það er um að gera að sækja sem flest ógnarstjórnarríkin heim sem þar að auki styðja hryðjuverk um allan heim. Viljum við virkilega stuðning þeirra við framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Það er mikilvægt og óskandi að utanríkisráðuneyti og ráðherra sæki ekki ráð til öfgamanna. Það er mikilvægt og óskandi að Íslandi beri gæfu til að gæta hlutleysis í erfiðri deilu þjóða og að Íslandi takist að feta þröngt einstigi þegar kemur að því að reyna að hafa áhrif á deiluaðilana í Ísrael og á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna. Það er enginn vafi á að við gætum haft jákvæð áhrif til lausnar deilunni. En við málum okkur út í horn með hegðun síðustu daga. Ef við viljum reka trúverðuga stefnu þá verðum við að taka á báðum aðilum deilunnar. Ef við viljum stuðla að friði þjóðanna á milli, þá verðum við að gæta hlutleysis.