Föstudagur 7. mars 2008

67. tbl. 12. árg.

V

Það er ekkert nýtt að foreldrar vilji halda í börnin sín en þurfa stjórnmálamenn líka að halda í foreldrana?

instri menn hafa brugðist illa við þeirri tillögu að Reykjavíkurborg greiði foreldrum ákveðna upphæð geti borgin ekki útvegað börnum þeirra leikskólapláss. Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi kallaði greiðslurnar „kvennagildru“ á fundi borgarstjórnar í vikunni og „stærsta skref aftur á bak í kvenfrelsismálum sem við höfum séð í sögu borgarstjórnar“. Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi telur rétt að þetta framtak fái kjörorðin: „konurnar heim“.

Sjálfsagt vita þau Svandís og Dagur allt um það hvernig einstakir foreldrar muni nýta þessar greiðslur. Vafalítið þekkja þau aðstæður allra foreldra og telja fullvíst að móðirin verði heima með greiðslurnar og barninu fremur en faðirinn, amma, afi eða bara einhver annar sem keyptur er til verksins fyrir greiðsluna frá borginni. En skelfing þeirra er þó eins og svo oft áður einkum yfir því að hinn almenni borgari fái að ráða einhverju um það hvaða þjónustu hann nýtir sér og hvernig. Það gengur auðvitað ekki að þeirra mati að foreldrar ákveði sjálfir hvað verður um barnið. Alveg skelfileg tilhugsun.

Gallinn við þessa tillögu er í raun að hún gengur of skammt. Hún ætti ekki aðeins að ná til þeirra foreldra sem eiga börn sem fá ekki inni á leikskólum borgarinnar heldur til allra foreldra barna á leikskólaaldri. Foreldrar ættu allir að fá sömu niðurgreiðslu frá borginni vilji menn á annað borð að borgin skipti sér af þessum málum. Með slíka ávísun upp á vasann gætu foreldrar sjálfir valið hvaða leið þeir fara í þessum efnum.

R SE stendur fyrir málþingi um eignarrétt á landi, þjóðlendulögin og framkvæmd þeirra í Snorrastofu, Reykholti á morgun, laugardaginn 8. mars, ásamt Árnastofnun, Snorrastofu og Búnaðarsamtökum Vesturlands. Fræðimenn og sérfræðingar á sviði lögfræði og sagnfræði fjalla þar um eignarrétt og landnám í sögulegu ljósi. Um kirkjueignir á fjalllendi og afrétti og um heimildagildi Landnámu. Þá verður einnig fjallað um inntak eignarréttar á landi með hliðsjón af dómaframkvæmd, um þjóðlendulögin og hvaða áhrif framkvæmd þeirra hefur haft á stöðu eignarréttarins. Einnig verður fjallað um lagaframkvæmdina með hliðsjón af eignarréttarvernd Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómsstólsins. Að loknum framsögum og fyrirspurnum verða pallborðumræður með fulltrúum stjórnmálaflokka.