Fimmtudagur 6. mars 2008

66. tbl. 12. árg.

Ö fugmælaverðlaunin í mars hljóta Samtök iðnaðarins fyrir yfirskrift „iðnþings“ sem haldið verður í dag. Undir yfirskriftinni „Mótum eigin framtíð“ verður á þinginu haldið áfram að suða um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, með viðeigandi fullveldisframsali og afsali íslenskra kjósanda á ráðstöfun íslenskra málefna.

Samtök iðnaðarins eru rekin fyrir nauðungargjöld íslenskra iðnrekenda sem þannig eru neyddir til að fjármagna pólitíska baráttu fyrir þessu geðfellda málefni. Iðnfyrirtækin eru neydd til að greiða hundruð milljóna króna á hverju ári til rekstrar þessara samtaka, sem eru einstaklega ákveðin í baráttu sinni. Féð er notað til linnulauss áróðurs, nýrra og nýrra skoðanakannana, hvenær sem hinum vel stæðu spyrjendum dettur í hug að sé lag, og stíft auglýstra funda. Funda sem snúast um að koma íslensku fullveldi í hendur ókosinna skrifstofumanna í Brussel og eru kynntir undir orðunum „mótum eigin framtíð“.

F rá Noregi berast nú þær fréttir að fjármálaeftirlitið þar í landi hafi svipt innheimtufyrirtækið Intrum Justitia starfsleyfi, vegna ítrekaðra brota þess á reglum undanfarin ár. Fyrirtækið kærir allar ákvarðanir og heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist á meðan embættismenn velta fyrir sér næsta leik. Vefþjóðviljinn sendir norska fjármálaeftirlitinu baráttukveðjur með orðunum „ekki gera ekki neitt“.

M innihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er hinn versti yfir því að borgaryfirvöld hyggist greiða foreldrum, sem ekki fá dagheimilispláss fyrir börn sín, nokkurt fé á mánuði á meðan þeir bíða. Svandís Svavarsdóttir sparaði ekki stóru orðin, frekar en venjulega eftir að hún lenti aftur í minnihluta, en ekki vegna þess að hún vildi spara peninga borgarsjóðs. Nei, þetta væri svo vont fyrir foreldrana sem fengju greiðslurnar. Svandís óttaðist hins vegar að þessar greiðslur gætu orðið til þess að einhverjar konur myndu nú treysta sér til að vera heima hjá börnum sínum í stað þess að koma þeim í opinbera geymslu. Það er með öðrum orðum ekki umhyggja fyrir borgarsjóði og ekki umhyggja fyrir foreldrum sem ræður afstöðunni, heldur umhyggja fyrir kreddum femínismans.

Nákvæmlega það sama og ræður því að áköfustu stuðningsmenn fæðingarorlofslaganna vilja frekar að fæðingarorlofsrétturinn falli niður en að foreldrar fái að skipta honum á milli sín að vild. Þeir segja fullum fetum að ef annað foreldrið geti ekki nýtt réttinn að þá sé betra að rétturinn falli niður en að hitt foreldrið megi nýta hann. Enda snúast fæðingarorlofslögin í raun ekki um börn og hagsmuni þeirra heldur um kreddur femínismans.

En þetta stendur nú til bóta, enda var því marglofað að fæðingarorlofsrétturinn yrði millifæranlegur að fullu um leið og feður yrðu farnir að taka orlof. Brátt eru átta ár liðin frá samþykkt laganna og ekki vantar sigurræðurnar um að feður séu ólmir í launuð frí. Þeir sem stóðu fyrir þessari lagasetningu munu vafalaust standa við orð sín og tryggja millifærileikann hið allra fyrsta. Svo börnin fái nú að njóta foreldris á heimilinu sem lengst.

Eru tugmilljarðaútgjöldin ekki annars réttlætt með „hagsmunum barna“?