E
Það er gamalt ráð höfðingja til alþýðunnar að fá sér bara kökubita þegar skortur er á mat. |
kki er gott að segja hvað Einari K. Guðfinnssyni landbúnaðarráðherra gekk til með því að láta forseta Íslands lesa upp enn eina heimsendaspána við setningu búnaðarþings í vikunni. Frá því hefur að minnsta kosti verið greint í fréttum að forsetinn hafi mætt þar og lesið upp ræðu þar sem hann varaði við yfirvofandi einangrun og bjargarleysi landsins og því væri nauðsynlegt að gera sérstakan sáttmála um íslenska matvælaframleiðslu.
Þó landbúnaðarráðherrann hafi raunar ekki verið nefndur í fréttum, þá vita allir sem þekkja stjórnskipunina að það er landbúnaðarráðherra en ekki forsetinn sem ræður því hvað forseti Íslands segir opinberlega um landbúnaðarmál. Er sú skipan raunar nauðsynleg, meðal annars þingræðisins vegna, enda eiga þingmenn að geta krafið ráðherra sagna um málefni stjórnsýslunnar en forsetinn persónulega er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og öðrum embættisverkum. Ef einhver alþingismaður vildi til dæmis gagnrýna tillögu þessa æðsta embættismanns framkvæmdavaldsins um matvælasáttmála, þá gæti þingmaðurinn tekið málið upp við landbúnaðarráðherra í þinginu, enda er það landbúnaðarráðherra en ekki forsetinn persónulega sem ber ábyrgð á henni.
Sama gildir vitaskuld um öll samskipti forsetans við erlenda aðila. Þau eru öll á ábyrgð og á valdi utanríkisráðherra. Þannig sendi forseti Íslands á dögunum heillaóskaskeyti til nýkjörins forseta Rússlands. Sending þessa skeytis var vitaskuld á ábyrgð utanríkisráðherra og það þarf ekki að efast um að það hafi verið ráðherrann sem tók í raun ákvörðun um sendingu skeytisins. Það skilst jafnvel enn betur ef menn ímynduðu sér að forsetinn hefði ekki sent skeyti þeim manni sem hlutskarpastur varð samkvæmt opinberum tölum, heldur þeim sem varð númer tvö. Ef forseti Íslands hefði, án leyfis eða tillögu utanríkisráðherra, ákveðið að senda þeim í öðru sæti heillaóskaskeyti þar sem hann segði þann mann rétt kjörinn, af því að Pútín hefði ábyggilega svindlað – þá hefðu flestir séð strax að það væri ekki forsetinn heldur utanríkisráðherrann sem gæti lýst slíkri afstöðu. Og af hverju? Jú, af því að forseti er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
Og með nákvæmlega sama hætti og forsetinn hefur ekki persónulega heimild til þess að senda skeyti í embættisnafni út í heim og rengja kosningaúrslit, hefur hann enga heimild til þess að viðurkenna þau. Enda þarf enginn að láta sér detta í hug að forseti Íslands hafi gert slíkt án heimildar og að tillögu utanríkisráðherra.
Um þetta atriði, meðferð valds forseta Íslands, fjallaði Þorsteinn Pálsson ýtarlega í vorhefti tímaritsins Þjóðmála árið 2006. Það er full ástæða til að mæla með þeirri grein, því þó þar sé vissulega fjallað um sjálfsagða hluti þá er umfjöllunin skýr, afdráttarlaus og skynsamleg.