Þriðjudagur 4. mars 2008

64. tbl. 12. árg.

T veir þingmenn Samfylkingarinnar munu hafa lagt það til nýlega að komið yrði á fót nýrri opinberri stofnun, í ætt við Þjóðhagsstofnun sem loks tókst að leggja niður fyrir nokkrum árum. Þingmennirnir virðast telja að opinberar stofnanir séu fremur of fáar en of margar og einnig að of fáir sýsli við það á daginn að greina hagstærðir.

En hvað sem um þessa tillögu má annars segja, þá var kannski engin von til þess að hún kæmist í umræðu án þess að nokkur maður endurtæki eina vitleysiskenninguna sem mikið var reynt að halda á lofti fyrir nokkrum árum: að Þjóðhagsstofnun hefði skyndilega verið lögð niður – og hafa sumir meira að segja reynt að benda á að þáverandi forsætisráðherra hafi verið ósammála stofnuninni um tiltekna spá, en láta þess þó ekki getið að þá voru tvö ár liðin frá því ráðherrann hafði kynnt áformin á ársfundi seðlabankans.

Staðreyndin er sú, að árum saman hafði staðið til að leggja Þjóðhagsstofnun niður, meðal annars vegna þess að sífellt fleiri voru teknir að sinna sömu verkefnum, hvort sem var í opinbera kerfinu, eins og á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og í seðlabanka, eða þá hjá einkaaðilum eftir að bankarnir voru leystir úr ríkisviðjunum. Þessi saga var rakin í hausthefti Þjóðmála árið 2005 og geta áhugasamir orðið sér úti um eintak af því hefti í Bóksölu Andríkis. Ekki verður hin fróðlega Þjóðmála-grein rakin hér, en niðurlag hennar var þetta:

Stuðningur við breytingarnar var í öllum flokkum, en hann hvarf í sumum þeirra þegar tækifæri gafst til að gera málið að pólitísku bitbeini og nota það til að reyna að klekkja á ríkisstjórninni og þá sérstaklega þáverandi forsætisráðherra. Síðan þá hafa stjórnarandstæðingar ítrekað notað þetta mál til „sönnunar“ þeirrar staðhæfingar sinnar að hér hafi verið stjórnað með harðri hendi og stofnanir fái að kenna á „dyntum“ ráðamanna. En þó þessu sé æ ofan í æ haldið fram opinberlega virðist engum detta í hug að spyrja að því hvaða dyntir hafi þá ráðið þegar fyrri ríkisstjórnir á árunum 1983 til 1995 gerðu ítrekaðar tilraunir til sams konar breytinga.

Tímaritið Þjóðmál birtir vandaðar og forvitnilegar greinar um íslensk þjóðmál og er ómissandi fyrir hugsandi áhugamenn um þau. Ársáskrift kostar aðeins 3500 krónur og fæst í Bóksölu Andríks og þar má einnig fá stök hefti tímaritsins.