Laugardagur 1. mars 2008

61. tbl. 12. árg.

M enn fóru á kostum í stóryrðum og frösum, núna þegar oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík tilkynnti að hann ætlaði ekki að láta af oddvitastarfinu heldur halda þeim möguleika opnum að verða borgarstjóri eftir þrettán mánuði, þegar Sjálfstæðisflokknum ber að manna embættið. Þessi yfirlýsing oddvitans, sem engum þurfti að koma á óvart, varð að einhvers konar allsherjaráskorun til manna um að sýna nú hvað þeir kynnu fyrir sér í frösum.

Skyndilega varð það að almennum fróðleik að það væri sérstök “óvirðing við borgarbúa” að ekki væri endanlega ákveðið hver tæki við borgarstjórastarfinu eftir fjórtán mánuði. Sumir bættu því við að borgin væri stjórnlaus vegna óvissunnar og hefur raunar mátt skilja þessa sömu suma þannig að þjónusta borgarinnar hafi með öllu legið niðri síðasta mánuðinn, eða allt frá því að lauk hinu óvenju framkvæmdasama tímabili síðasta vinstrimeirihluta – sem má þó eiga það að eftir stjórn hans stóð ekki eftir eitt einasta atriði málefnasamnings hans óklárað.

Eftir fimmtán mánuði mun Samfylkingin eiga að taka við embætti forseta Alþingis, samkvæmt samningi stjórnarflokkanna. Hver verður sá forseti? Er búið að ákveða það? Og ef ekki, er það þá til marks um óeiningu og sundrungu í þingflokknum? Er þingið stjórnlaust þar til menn fá að vita hver verður þingforseti eftir fimmtán mánuði?

Hver verður forseti Bandaríkjanna eftir tæpa ellefu mánuði? Eru Bandaríkin lömuð vegna óvissunnar?

Það er hreint engin óvirðing fólgin í því við kjósendur að það sé ekki búið að ákveða hver taki við borgarstjórastarfi eftir þrettán mánuði. Það var engin þörf á að taka ákvörðun um þessi mál í einhverju æðiskasti þrettán mánuðum áður en ákvörðunin á að koma til framkvæmda – ef meirihlutinn situr þá enn. Þegar að því kemur, tekur oddviti borgarstjórnarflokksins einfaldlega við starfinu, hver svo sem verður oddvitinn á þeim tíma.