Í þéttbýli eru samgöngurnar oft helsta umhverfisógnin sem við er að etja og hefur sú þróun átt sér stað víða um heim. Á höfuðborgarsvæðinu er nú svo komið að neikvæð áhrif bílaumferðar eru helstu umhverfisvandamál sveitarfélaganna og æ oftar mælist mengun í Reykjavík ofar hættumörkum. Útblástur koltvíoxíðs frá bílaumferð og svifryk, sem m.a. stafar af notkun nagladekkja, eru helstu orsakirnar. Það er því mikilvægt að horfa á markmið og leiðir í samgöngumálum með gleraugum umhverfismálanna. |
– Úr greinargerð með nýrri tillögu Árni Þórs Sigurðssonar og fleiri til þingsályktunar um að kanna hagkvæmni léttlesta á höfuðborgarsvæðinu. |
Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar Reykjavíkur, segir hugmyndir um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu verða lagðar á hilluna í kjölfar skýrslu um kostnað við kerfið. Þar er staðfest að almenningssamgöngur með léttlestum kosta margfalt meira en með strætisvögnum og mundu einungis ná til um þriðjungs íbúa. |
– Frétt Ríkisútvarpsins 17. desember 2004. |
Þ egar Árni Þór Sigurðsson var borgarfulltrúi viðruðu hann og félagar hans í R-listanum að minnsta kosti þrjár tillögur um lestarsamgöngur í Reykjavík: Hraðlest til Keflavíkur, léttlest ofanjarðar og neðanjarðarlest líkt og allnokkrar milljónaborgir í heiminum láta eftir sér.
Tillagan um neðanjarðarlestakerfi í Reykjavík var raunar svo galin að hún fékkst aldrei rædd nema milli R-listamanna. Þær umræður snérust meðal annars um hvað ætti að gera við þann mikla ávinning sem fælist í uppgreftrinum úr lestargöngunum. Væri ef til vill hægt að nota hann í landvinninga við strönd borgarinnar og búa til fjölda nýrra lóða og stórgræða á öllu saman, spurði einn R-listamaðurinn vongóður í blaðagrein.
Hagkvæmniathuganir voru hins vegar gerðar á léttlestinni og hraðlestinni og sannast sagna voru báðir kostir dæmdir fráleitir. Hraðlestin var vart geta staðið undir daglegum rekstrarkostnaði, hvað þá stofnkostnaði sem hljóp á tugum milljarða króna. Athugun á kostum léttlestarkerfis um borgina leiddi einnig í ljós að það yrði hrikalega dýrt og ósveigjanlegt miðað við aðra kosti eins og strætó. En sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru þó þegar að kikna undan þeim rekstri. Um þetta þurfti þó aldrei að gera neina sérstaka könnun því það liggur í augum uppi að stofnkostnaður við lestakerfi er margfaldur á við strætisvagna sem nýta einfaldlega þeir götur sem fyrir eru. Þetta hafði legið fyrir í borgarkerfinu áður en Árni og félagar köstuðu útsvarspeningum borgaranna út um gluggann með sérstakri könnun á málinu.
En nú er Árni sumsé kominn á þing og vill að ríkið fari í lestarleik með sér þótt hann hafi verið búinn að viðurkenna að þessar lestarhugmyndir gangi alls ekki upp. Skattgreiðendur eiga sem fyrr að bera kostnaðinn.
Í takt við tíðarandann eru megin rökin fyrir tillögunni ekki að málið sé hagkvæmt eða líklegt til að gagnast hinum almenna manni. Nei nú um stundir dugar að nefna „umhverfisógnina“ og „umhverfisvandamálin“, sem öll mælast að sjálfsögðu „ofar hættumörkum“. Skoða málin með gleraugum umhverfismálanna. Það er reyndar einhver misskilningur hjá Árna og félögum hans að útblástur koltvíoxíðs sé á einhver hátt hættulegur borgarbúum. Það er bara rangt og villandi að nefna koltvísýring í samhengi við loftgæði í borgum.
Bílum á nagladekkjum fækkar einnig jafnt og þétt. Þar vegur hlýnandi veðrátta án efa þungt en Árni Þór og margir umhverfissinnar trúa því einmitt að hlýnunin sé vegna útblásturs koltvísýrings. Drifbúnaður bíla hefur einnig batnað mjög á síðari árum og hlutfall bíla með drif á öllum hjólum hefur snarhækkað. Árni Þór og margir umhverfissinnar vilja raunar gera fólki erfitt fyrir að kaupa vel búna bíla með því að skattleggja þá úr færi hins almenna manns. Þeim finnst betra að menn séu á gömlum mengandi skrjóðum á nagladekkjum. Undir forystu Gísla Marteins Baldurssonar formanns umhverfisráðs Reykjavíkur hefur borgin einnig farið nýjar leiðir í baráttunni við svifrykið, meðal annars með bættum þrifum gatna og notkun rykbindiefna. Aldrei sýndi Árni Þór slíka tilburði á meðan hann var formaður umhverfisráðs borgarinnar.